„Ég biðla til fólks að láta vera að senda okkur pósta sem ætlað er að koma því framarlega í forgangsröð bólusetninga,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Ef við yrðum við öllum þessum beiðnum myndi okkar viðkvæmasta fólk færast neðar í forgangsröðina.“
Fjórir greindust með veiruna innanlands í gær og voru tveir þeirra í sóttkví. Þórólfur sagði ánægjulegt að áfram væru að greinast tiltölulega fáir innanlands og að flestir þeirra væru í sóttkví við greiningu. „Enn erum við þó að greina einstaklinga utan sóttkvíar sem hefur komið svolítið á óvart og segir okkur að veiran er enn þá úti í samfélaginu og við þurfum að hafa það í huga.“
Takmörkunum var aflétta að hluta innanlands fyrir rúmri viku. Þórólfur sagði enn ekki tímabært að taka ákvörðun um frekari afléttingar þar sem lengri tími þyrfti að líða til að sjá árangur af síðustu tilslökunum. Núverandi samkomutakmarkanir gilda til 17. febrúar.
Í þessari viku fá tæplega 5.000 íbúar öldrunarheimila og framlínustarfsmenn sína seinni bólusetningu. Jafnframt fá um 3.000 einstaklingar í elstu aldurshópunum sína fyrstu sprautu.
Færri skammtar tímabundið
Samkvæmt uppfærðri dreifingaráætlun Pfizer munu færri skammtar berast af bóluefni fyrirtækisins næstu vikurnar en gert var ráð fyrir. Það helgast af tímabundinni minnkaðri framleiðslugetu á meðan verið að er að endurbæta framleiðslulínur. Heildarmagn bóluefnis í marslok verður þó óbreytt miðað við fyrri áætlanir eða um 50 þúsund skammtar.
Þórólfur fór yfir forgangsröðun bólusetninga og ítrekaði að í forgangi væru annars vegar þeir sem eru í mestri áhættu að smitast af veirunni og hins vegar þeir sem eru eldri en 70 ára og líklegastir til að fá alvarlegar afleiðingar af sýkingunni. Í þessum forgangshópi eru samanlagt um 40 þúsund manns.
Í marslok er áætlað að bóluefni fyrir 30 þúsund manns verði komið til landsins. Því er ekki hægt að fara í aðra framgangshópa fyrr en að þeim tíma loknum.
Mögulega hraður vöxtur í afhendingu
„Þannig þýðir lítið að vera að krefja okkur um nákvæma tímasetningu á bólusetningu annarra forgangshópa á þessari stundu,“ sagði Þórólfur. Tímaramminn helgist af því hvenær og hversu mikið af bóluefni kemur hingað til lands.
Fyrsti skammtur af Moderna-bóluefninu er þegar kominn til landsins. Þá er von á markaðsleyfi tveggja bóluefna til viðbótar, frá AstraZeneca og Jansen, á næstu dögum eða vikum. Þá er að sögn Þórólfs hægt að vonast til að bólusetningar geti gengið hraðar fyrir sig. Engar dreifingaráætlanir lyfjafyrirtækjanna liggja enn fyrir eftir marsmánuð.
Þórólfur á enn í viðræðum við Pfizer um rannsóknarverkefni hér á landi hvað bólusetningar og hjarðónæmi varðar. Hann greindi frá því á fundinum að hann hefði einnig nefnt sambærilegt rannsóknarverkefni við aðra lyfjaframleiðendur. Engar ákvarðanir hafi þó verið teknar í þessum efnum. „Við vitum ekki hversu marga þarf að bólusetja til að ná hjarðónæmi,“ sagði Þórólfur. Talað sé um að bólusetja þurfi um 60-70 prósent samfélags til að ná því. Hvenær það hlutfall bólusettra næst hér á landi er ómögulegt að segja til um á þessari stundu.
Fáum ekki forgang út á fámennið
Spurður hvers vegna það taki svo langan tíma að fá bóluefni fyrir svo fámenna þjóð minnti Þórólfur á að fámennið séu ekki rök fyrir því að við ættum að fá hlutfallslega meira en aðrir. Eftir því sem fleiri fyrirtæki fá markaðsleyfi fyrir sín bóluefni er líklegt að afhending þeirra fari hratt vaxandi þó ekkert sé enn hægt að segja til um það með vissu.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, var gestur fundar dagsins og sagði að búið væri að gera sviðsmyndir um viðbrögð við því ef miklar bólusetningar geta hafist á skömmum tíma. „Ef það kemur mikið bóluefni á stuttum tíma þá munum við vera tilbúin að koma því út,“ sagði hún en heilsugæslan ber ábyrgð á framkvæmd bólusetninga. „Það kemur röðin á öllum – það verður enginn skilinn út undan.“