Frá því reglur voru hertar á landamærum Íslands í síðustu viku og allir sem til landsins koma voru skyldaðir til þess að fara í COVID-próf við komuna hefur ekki enn komið til þess að einhver hafi gjörsamlega harðneitað að undirgangast sýnatöku.
Ef einhver neitar í fyrstu hefur verið rætt við viðkomandi og upplýst um mikilvægi þess að hann veiti sýni. Sú aðferð hefur ekki klikkað til þessa, samkvæmt svari frá embætti ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans. Einhverjir hafa þó hugsað sig um klukkustundum saman áður en þeir ákveða að undirgangast skimunina.
Í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra boðaði föstudaginn 15. janúar að allir yrðu almennt skyldaðir til að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins óskaði Kjarninn eftir upplýsingum frá ríkislögreglustjóra um það hvaða valdheimildir lögregla hefði gagnvart þeim sem harðneituðu skimun og á hverju þær valdheimildir byggðust.
Efasemdir höfðu verið uppi um það af hálfu heilbrigðisráðuneytisins að lagastoð væri fyrir þeim hertu aðgerðum sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, en síðan samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum að gera tvöfalda landamæraskimun með fimm daga sóttkví á milli að skyldu.
„Neyðarúrræði,“ sagði heilbrigðisráðherra, en sóttvarnalæknir hafði lýst yfir áhyggjum af nýjum og meira smitandi afbrigðum kórónuveirunnar og uppgangi faraldursins í flestum nágrannaríkjum Íslands.
Útlendingalög og sóttvarnalög
Ef svo illa færi að sannfæringarkraftur landamæravarða myndi ekki duga væri ýmist hægt að vísa fólki frá landinu eða beita það þvingunarúrræðum innanlands, samkvæmt svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans.
Heimild er til þess að vísa útlendingum sem neita að fara í skimun frá landinu á grundvelli ákvæða útlendingalaga. Í sóttvarnalögum er svo heimild til þess að beita þvingunarúrræðum á borð við sýnatöku, einangrun eða sóttkví, sem sóttvarnalæknir myndi ákveða hver ættu að vera í hverju máli fyrir sig.
„Áður en gripið er til þvingunaraðgerða skal ætíð reynt að leysa mál með öðrum hætti,“ segir í svarinu frá embætti ríkislögreglustjóra.
Bara hægt að vísa útlendingum úr landi
Eitt gildir um erlenda ríkisborgara og annað fyrir Íslendinga. Á landamærum hefur lögreglan heimild til þess að beita frávísunum gagnvart útlendingum, meðal annars á grundvelli almannaheilbrigðis. Sú heimild er ekki til staðar gagnvart Íslendingum, enda ná útlendingalög ekki yfir þá.
„Þannig liggja fyrir verklagsreglur um frávísanir á grundvelli útlendingalaga gagnvart þeim útlendingum sem geta ekki eða vilja ekki fara eftir þeim sóttvarnarreglum sem í gildi eru,“ segir í svari embættis ríkislögreglustjóra.
Þar segir enn fremur að áhersla sé lögð á að skoða hvert tilvik fyrir sig. Einstaklingar séu upplýstir um gildandi sóttvarnareglur og aðgerðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir að smit berist til landsins. Túlkar eru kallaðir til ef þörf krefur.
Sóttvarnalæknir myndi þurfa að leggja til þvingunarúrræði
Um heimildir til þess að beita þvingunarúrræðum innanlands er farið eftir ákvæðum sóttvarnalaga og reglugerðar heilbrigðisráðherra um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19.
Neiti einstaklingur að fara í sýnatöku eða sóttkví, og undanþáguskilyrði eiga ekki við, getur sóttvarnalæknir leitað aðstoðar lögregluyfirvalda vegna aðgerða til að varna smiti, s.s. sýnatöku, einangrun eða sóttkví í samræmi við 14. gr. sóttvarnalaga.
Í svari embættis ríkislögreglustjóra segir að ef einhver neiti að fara í sýnatöku og ljóst sé að viðkomandi sé ekki undanþeginn skimun, hafi lögregla samband við sóttvarnarlækni sem taki ákvörðun um þvingunarúrræði sem beita skuli gagnvart viðkomandi einstaklingi í samræmi við sóttvarnalög.
Sóttvarnalæknir tekur ákvörðun um það hvar viðkomandi á að dvelja á meðan hann er þvingaður í sóttkví, til dæmis í farsóttarhúsi, samkvæmt embætti ríkislögreglustjóra.