Vísbendingar eru um að bóluefni sem þegar hafa verið þróuð gegn COVID-19 veiti ekki vörn gegn sýkingu af afbrigði kórónuveirunnar sem fyrst greindist í Suður-Afríku. Óvissa um ónæmi sem bóluefni veita sem og fyrri sýkingar af COVID-19 hefur einnig vaknað vegna annarra stökkbreyttra afbrigða veirunnar. Vísindamenn víða um heim vinna nú hörðum höndum að því að komast að hinu sanna með því að fara yfir gögn sem streymt hafa inn um nýju afbrigðin síðustu daga.
„Sum gögnin sem ég hef séð undanfarna daga hafa valdið mér miklum ótta,“ hefur vísindatímaritið Nature eftir Daniel Altmann, ónæmisfræðingi við Imperial College í London. Hann segir mögulegt að nýju bóluefnin gegn COVID-19 veiti ekki fullnægjandi vörn gegn sumum hinna nýju afbrigða.
Gögnin sem hann vísar til eru niðurstöður úr blóðrannsóknum á litlum hópi fólks sem annað hvort hefur þegar fengið COVID-19 eða bólusetningu gegn sjúkdómnum. Í rannsókninni var aðeins kannað hvort að mótefni fólksins væru nægjanleg til að hindra að veiran sýkti frumur líkamans en ekki hver áhrif annarra þátta í ónæmiskerfi þeirra gætu verið. Enn er því mikil vinna fyrir höndum áður en hægt er að slá nokkru föstu. „Skipta þessar breytingar [á veirunni] einhverju máli? Ég veit það satt best að segja ekki,“ hefur Nature eftir Paul Bieniasz, veirufræðingi við Rockefeller-háskóla í New York-borg, en hann kom að einni blóðrannsókninni.
Þó að mörg afbrigði veirunnar sem hafa litið dagsins ljós síðustu vikur veki áhyggjur þar sem þau eru talin meira smitandi en önnur er það sérstaklega stofninn sem uppgötvaðist í Suður-Afríku sem vísindamenn óttast.
Afbrigðið, sem hefur fengið nafnið 501Y.V2 í heimi vísindanna, er talið hafa orðið til þess að mikill faraldur breiddist hratt út í austurhluta Suður-Afríku í nóvember og hefur síðan þá beiðst út um allt landið og nú til annarra landa. Það var Tulio de Oliveira, líftæknifræðingur við KwaZulu-Natal-háskóla í Durban sem greindi afbrigðið fyrst og komst teymi hans að því að miklar stökkbreytingar eru að finna í gaddapróteini hennar frá flestum öðrum afbrigðum. Það er gaddapróteinið sem kórónuveirur draga nafn sitt af og er það sem veldur því að veiran getur fest sig við frumur mannslíkamans og komist inn í þær.
Fólk að sýkjast aftur
Héraðið Austur-Höfði varð illa úti í fyrstu bylgju faraldursins og þegar hann blossaði upp að nýju í sama héraði í nóvember og nýja afbirgðið greindist fóru að vakna spurningar um hvort ónæmi af fyrri afbrigðum veitti ekki vörn gegn sýkingu af völdum þess nýja.
Í kjölfarið hófust rannsóknir byggðar á blóðsýnum úr fólki sem hafði sýkst af öðrum afbrigðum og niðurstaðan hingað til er sú að mótefni sem þar er að finna verst suðurafríska afbrigðinu verr en öðrum. „Þetta er mikið áhyggjuefni,“ hefur Nature eftir Oliveira.
Í fréttaskýringu tímaritsins kemur fram að dæmi séu um að fólk sem fengið hefur COVID-19 hafi sýkst aftur vegna suðurafríska afbrigðisins. Oliveira segir því mögulegt að afbrigðið hafi eiginleika til að komast í gegnum þær varnir sem mótefni gegn fyrri afbrigðum veita.
Vísindamenn í Suður-Afríku og víðar eru nú að hefja frekari rannsóknir vegna málsins og verður þeim m.a. sérstaklega beint að því hvort að bóluefni sem þegar hafa verið þróuð gegn COVID-19 virki gegn nýja afbrigðinu. Frumniðurstöður slíkra rannsókna hafa þegar sýnt að virkni bóluefna Pfizer og Moderna minnkar aðeins lítillega þegar ákveðnar stökkbreytingar suðurafríska afbrigðisins eiga í hlut. Þó að vísindamenn segi þetta góðs viti á enn eftir að fara dýpra ofan í rannsóknir. Þar sem rannsóknirnar hafa hingað til aðeins verið bundnar við rannsóknarstofur er ekki hægt að fullyrða að bóluefnin veiti sambærilega vörn gegn nýja afbrigðinu og öðrum „í raunheimum“.
Ekkert útilokað
Sérfræðingur í RNA-veirufræðum við háskólann í Bern í Sviss segir of snemmt að segja til um hvort að hin nýju bóluefni, sem eru sum hver þróuð með svokallaðri mRNA-tækni, dugi. Það er hins vegar alls ekki útilokað. „Þó að bóluefnin ráðist aðeins gegn erfðaeiningu gaddapróteinsins þá ættu þau enn að geta framkallað ónæmisviðbrögð gegn þessum nýju afbrigðum.“
Breska afbrigðið svokallaða, sem sumir vilja kenna við Kent-sýslu þar sem það uppgötvaðist fyrst, er einnig talið hafa svipaða eiginleika og það suðurafríska. Í fyrstu var talið að það væri allt að 70 prósent meira smitandi en fyrri afbrigði en nú þykir ljóst að smithættan er líklega alls ekki svo mikil heldur nær 35 prósent meiri en þekkst hefur.
Óvissa og meiri óvissa
Rannsókn líftæknifyrirtækisins BioNtech, sem kom að þróun bóluefnis með Pfizer, hefur sýnt að bóluefnið getur varist sýkingu af völdum breska afbrigðisins nægilega. Sú rannsókn var lítil og önnur lítil rannsókn vísindamanna við Háskólann í Cambridge leiddi í ljós örlítið minni vörn efnisins gegn afbrigðinu. Það ætti hins vegar ekki að koma að sök í stóru myndinni, segja vísindamenn.
Óvissa er því svarið sem vísindaheimurinn getur gefið á þessari stundu við því hvort að bóluefnin gagnist gegn nýjum afbrigðum veirunnar. Oliveira, sá sem greindi fyrst suðurafríska afbrigðið, segir að vísbendingar um að fólk sem fengið hafði COVID-19 sé aftur að sýkjast vera stóra áhyggjuefnið og rannsóknarverkefnið á næstunni. „Ef það reynist tilfellið er hugmyndin um hjarðónæmi aðeins fjarlægur draumur – að minnsta kosti hvað snertir náttúrulegt hjarðónæmi.“