Sumarhús hafa aldrei gengið kaupum og sölum fyrir hærri fjárhæðir en þau gerðu á Íslandi í fyrra, en þá vörðu landsmenn tæpum 9,8 milljörðum króna í sumarhús, samkvæmt nýjum tölum um fasteignaviðskipti frá Þjóðskrá.
Árið 2019 keyptu Íslendingar sumarhús fyrir tæpa 6,5 milljarða og því er um rösklega 50 prósent aukningu að á milli ára ára. Fjöldi viðskipta jókst mikið, en alls var 485 kaupsamningum um sumarhús þinglýst árið 2020, samanborið við 338 árið 2019.
Meðalverð sumarhúsa sem keypt voru árið 2020 nam tæpum 20,2 milljónum króna, tæplega milljón krónum meira en árið 2019.
Fyrra metár hvað fjölda sumarhúsakaupa og upphæðir sem varið var til kaupanna var árið 2017, en þá voru 402 sumarhús keypt fyrir tæpa 7,4 milljarða króna. Þá nam meðalverðið um 18,4 milljónum króna.
Vaxtalækkanir og breyttar ferðavenjur
Ísland er ekki eyland þegar kemur að aukningu í viðskiptum með sumarhús. Á haustmánuðum var töluvert fjallað um það í Noregi að sumarbústaðamarkaðurinn, eða „hyttu“-markaðurinn þar í landi, væri í hæstu hæðum. Fasteignamiðlarar höfðu ekki upplifað annað eins.
Í umfjöllun Finansavisen frá því í september var þetta skýrt með lágu vaxtastigi og breyttum ferðavenjum – sem hvoru tveggja eru beinar afleiðingar kórónuveirufaraldursins. „Peningar sem áður voru notaðir í utanlandsferðir eru nú notaðir í hyttur,“ var haft eftir fasteignasala.
Í nóvember síðastliðnum seldust 85 prósent fleiri hyttur heldur en á sama tímabili árið 2019 og heilt yfir árið voru viðskipti með sumarhúsin norsku um það bil fjórðungi fleiri en verið hafði fram að þeim tíma árið. Samkvæmt umfjöllun Dagens Næringsliv var búist við áframhaldandi sterkum hyttu-markaði inn í árið 2021.
Metvelta á fasteignamarkaði almennt
Þjóðskrá birti í gær upplýsingar um veltu á fasteignamarkaði eftir landshlutum fyrir árið 2020. Fjöldi fasteigna sem gekk kaupum og sölum á landinu öllu var 13.887 talsins og var upphæð viðskiptanna í heild um 667 milljarðar króna þegar miðað er við útgáfudagsetningu.
Þegar árið 2020 er borið saman við árið 2019 fjölgar kaupsamningum um 15,3 prósent og velta hækkar um 22,6 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgar samningum um 15,3 prósent á milli ára og velta hækkaði um 21,9 prósent.
Hlutfallsleg veltuaukning á sumarhúsamarkaði skákar því veltuaukningunni sem almennt varð á fasteignamarkaðnum hér á landi.