Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, leggur til að formenn allra stjórnmálaflokka sem bjóða munu fram lista fyrir næstu alþingiskosningar sammælist um skýrar leikreglur sem útiloki ofbeldisfull og meiðandi ummæli í aðdraganda kosninga.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hennar í dag. Tilefni skrifanna er meðal annars atvik sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga en skotið var með byssu á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra einhvern tímann í síðustu viku.
„Árásir á stjórnmálafólk og höfuðstöðvar stjórnmálaflokka eru sterk áminning til allra sem taka þátt í opinberri umræðu um að sýna ábyrgð, aðgát og mannvirðingu. Við sem störfum í stjórnmálum verðum að standa saman gegn þessari vá. Öll berum við ábyrgð,“ skrifar hún.
Atlaga að dýrmætu frelsi og lýðræði
Lesa
„Skýrar sameiginlegar línur og skilaboð af hálfu forystufólks í stjórnmálum um að hvers kyns ofbeldi verði ekki liðið, væri þýðingarmikil byrjun á kosningaári. Látum kosningarnar snúast um hugmyndir og málefni. Fyrir fólkið okkar. Það er mikið undir. Ég er til,“ skrifar hún að lokum.