Töluverð umræða hefur verið um svokallaða „útrýmingarleið“ (e. eliminiation strategy) í baráttunni gegn kórónuveirunni á Írlandi undanfarna daga. Kröfur hafa verið uppi um það, á vettvangi stjórnmálanna að reynt verði að skipta um kúrs í baráttunni við veiruna, enda hafi það sýnt sig að tímabundnar aðgerðir sem miði að því að bæla hana niður virki ekki.
Írar slökuðu á sóttvarnaaðgerðum sínum eftir jól og úr varð að tíðni greindra smita á hverja milljón íbúa fór hærra þar en raunin hefur orðið í nokkru öðru landi frá því að kórónuveiran lét fyrst á sér kræla í upphafi síðasta árs. Tíðnin er nú á hraðri niðurleið, enda gríðarlega harðar aðgerðir í gildi og verða áfram til 5. mars. Írar hugsa nú með sér hvað sé réttast að gera.
Sumir telja réttast að stefna að útrýmingu veirunnar, en aðrir telja það óraunhæft, meðal annarra helsti sóttvarnasérfræðingur landsins, Philip Nolan.
Í stuttu máli sagt þá er „útrýmingarleiðin“, sem stundum er kölluð Zero-Covid eða núllstefna, sú leið sem ríki á borð við Nýja-Sjáland, Ástralíu, Víetnam og Taívan hafa valið sér í baráttunni við veiruna allt frá upphafi.
Miklar takmarkanir hafa verið á landamærum þessara ríkja og fyrirséð að þær verði lengi enn. Miklu púðri er síðan varið í að ná utan um smit þegar þau spretta upp í samfélaginu eftir að hafa lekið inn fyrir þær sóttkvíar- og skimunarvarnir sem til staðar eru.
Þetta hefur virkað vel, ef einungis er horft til þróunar faraldursins, eins og sjá má á línuritinu með samanburði á framgangi faraldursins í þessum ríkjum og hér á landi hér að neðan. Nú er svo komið að viðburðir þar sem þúsundir safnast saman þykja ekkert tiltökumál.
Lítið hefur verið rætt um þetta sama hér á Íslandi. Sérfræðingar frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu, sem veittu stjórnvöldum þar ráðgjöf, skrifuðu grein í British Medical Journal (BMJ) skömmu fyrir jól þar sem þeir færðu rök fyrir því að útrýmingarstefnan gæti verið fýsilegasta leið ríkja til að takast á við COVID-19 og framtíðarfarsóttir.
Minnst er á Ísland í grein þeirra, í samhengi við efnahagsleg áhrif sem ríki þurfi að taka tillit til þegar þau velji sína leið. „Ísland enduropnaði sig fyrir ferðamennsku en eftirspurnin hélst áfram lítil, innfluttum tilfellum COVID-19 fjölgaði og heildarútkoman varð meiri samdráttur vergrar landsframleiðslu en sást í Nýja-Sjálandi,“ skrifa greinarhöfundar.
Verður ekki auðveldlega stýrt
Kjarninn spurði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni að því hvort hann teldi að Ísland væri í stöðu til að útrýma veirunni úr samfélaginu nú og hvort hann teldi það hyggilegt. Blaðamaður spurði reyndar einnig að því hvort Ísland væri mögulega komið á þessa vegferð, án þess að það væri sagt upphátt af hálfu yfirvalda.
Þórólfur var skýr um það, í skriflegu svari til Kjarnans, að stefna íslenskra yfirvalda hefði ekki á nokkrum tímapunkti verið sú að reyna að útrýma veirunni úr samfélaginu. „Okkar stefna hefur alltaf verið að bæla veiruna niður eins og hægt er,“ skrifaði Þórólfur.
Hann bætti við að það væri ekki svo að þessu yrði „auðveldlega stýrt með ákvörðun að útrýma eða ekki“ og sagði ennfremur að hann væri ekki sammála „tillögum um mjög harðar aðgerðir á þessari stundu,“ sem þyrfti til að útrýma veirunni alveg. Það sem meira er segist Þórólfur ekki búast við að stjórnvöld yrðu það heldur.
Á upplýsingafundi almannavarna á fimmtudag sagði Þórólfur að það kæmi vel til greina að slaka á gildandi sóttvarnaráðstöfunum að einhverju leyti fyrr en áætlað var, en núverandi takmarkanir eru í gildi til 17. febrúar samkvæmt reglugerð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Landamærin við Norður-Írland flæki málin
Æðstu ráðamenn á Írlandi, forsætisráðherrann Micheál Martin og varaforsætisráðherrann Leo Varadkar, hafa báðir lýst yfir efasemdum um að ganga skuli lengra og stefna að útrýma veirunni. Varadkar hefur sagt sérfræðinga stjórnvalda á þeirri skoðun þetta myndi ekki virka í írsku samhengi.
Rökin eru þau, samkvæmt frétt Irish Times, að landamærin við Norður-Írland þurfi að vera opin og að Írar séu í ýmsum nauðsynlegum tengslum við bæði Bretland og Evrópu.
Einnig gæti tekið langan tíma að útrýma veirunni úr samfélaginu og eitilharðar aðgerðir þyrftu að vera til staðar á meðan. Útrýming „þýðir að innanlandssmitin séu núll... 14 daga í röð,“ er haft eftir Varadkar. Hann bætti við að í Melbourne í Ástralíu hefði þetta tekið þrjá mánuði og gæti tekið „mun lengri“ tíma í Írlandi.
Þetta segja „útrýmingarsinnar“ á Írlandi að sé ávísun á að önnur bylgja faraldursins rísi þegar núverandi hörðum aðgerðum verði aflétt, en til stendur að gera það afar varlega frá og með 5. mars, miðað við orð ráðamanna.
Mary Regan, stjórnmálaskýrandi írska ríkisfjölmiðilsins RTÉ, segir þó að ýmis teikn séu á lofti um að írska stjórnin sé að færast í átt að þeim aðgerðum sem „útrýmingarstefnan“ byggist á. Þau kalli það bara annað, eða „langvarandi bælingu veirunnar.“