Samtök ferðaþjónustunnar telja að þrátt fyrir að undirbúningur frumvarps um hálendisþjóðgarð hafi verið faglegur sé þörf á að vinna málið lengra og vinna úr ákveðnum grundvallaratriðum sem enn eru óljós. Það er mat samtakanna að útfærslur í frumvarpinu séu ekki í nægilega miklu samræmi við þau „góðu markmið“ sem sett eru fram í markmiðsgrein frumvarpsins. Samtökin gagnrýna einnig að frumvarpið virðist „festa í sessi ríkisstofnun með flókna og þunglamalega stjórnsýslu, þar sem sú atvinnugrein sem mesta hagsmuni hefur af nýtingu náttúru svæðisins, ferðaþjónustan, hefur takmarkað vægi.“
Meðal annars af þessum sökum mæla samtökin gegn samþykkt frumvarps um hálendisþjóðgarð í óbreyttri mynd. „Þegar svo stórt landsvæði er tekið undir ákvörðunarvald einnar ríkisstofnunar er gríðarlega mikilvægt að ná breiðri sátt,“ stendur í umsögn samtakanna um frumvarpið. Samtökin telja því brýnt að „svo stórt hagsmunamál fyrir þjóðina alla sé unnið í sem víðtækastri sátt meðal hagaðila“, til dæmis með tilliti til náttúruverndar, ábyrgar stjórnunar og nýtingu sameiginlegrar auðlindar.
Umsagnafrestur um frumvarp til laga um hálendisþjóðgarð rann út í gær, 1. febrúar. Yfir 130 umsagnir og athugasemdir bárust.
Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) kemur fram að þau hafi í gegnum árin almennt verið jákvæð í garð hálendisþjóðgarðs. „Það frumvarp sem lagt er fram nú verður þó einungis að horfa á sem skref í áttina að þeim áfanga,“ segir í umsögninni sem Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri samtakanna, skrifar. „Lítil sátt er um frumvarpið meðal hagaðila enda virðist frumvarpið ekki ná þeirri samstöðu sem samtökin telja að þurfi til. Nauðsynlegt er að endurskoða og undirbúa betur ýmis grundvallaratriði málsins í samvinnu ríkis og hagaðila.“
Þrátt fyrir að ferðaþjónusta sé sú atvinnugrein sem nýtir hvað mest auðlindir hálendisins er vægi ferðaþjónustunnar í framlögðu frumvarpi að mati SAF takmarkað. Lítið er þar fjallað um atvinnugreinina þrátt fyrir að hún sé talin ein meginforsenda lagasetningarinnar og augljóst sé að sértekjur þjóðgarðsins eigi samkvæmt frumvarpinu að koma að stórum hluta frá ferðaþjónustu og ferðamönnum.
Þá telja samtökin reglugerðarheimildir ráðherra of opnar og að drög að reglugerðum og stefnumörkun þurfi að vera til staðar áður en mál af þessari stærð er samþykkt. „Þó að ramminn í púslinu sé að einhverju leyti til staðar í frumvarpinu vantar mikið upp á heildarmyndina. Í stað þess að frumvarpið sé leiðbeinandi virðist það frekar halla að boðum og bönnum. Frumvarpið má ekki koma í veg fyrir eðlilega og mikilvæga atvinnuþróun og uppbyggingu með boðuðum takmörkunum. Gjaldtaka, leyfisveitingar og úthlutanir taka í raun stærri sess í frumvarpinu en þau markmið sem lagt er upp með.“
SAF bendir á að reynslan hafi kennt að það taki tíma að byggja upp þjóðgarð í sátt við hagaðila. Til að hægt sé að koma þjóðgarði af þessari stærð á laggirnar þurfi að tryggja rekstur til langs tíma. „Sú fjármögnun hefur ekki verið tryggð og ljóst er að ótækt er að slík fjármögnun verði tryggð með öflun sértekna af ferðaþjónustufyrirtækjum. Öllum er ljóst að ferðaþjónusta hefur farið hvað verst út úr þeim heimsfaraldri sem nú gengur yfir heiminn. Ljóst er að burðir greinarinnar til aukinnar gjaldtöku og skattheimtu verða engir næstu árin.“
Náttúra Íslands, þar á meðal hálendi Íslands og jaðarsvæði þess, er sú auðlind sem íslensk ferðaþjónusta byggir á, segir ennfremur í umsögninni. Verðmætasköpun atvinnugreinarinnar fyrir samfélagið byggi á nýtingu auðlindarinnar á sjálfbæran hátt til framtíðar. Þegar fjallað sé um vernd og friðun hálendisins sé því nauðsynlegt að horfa sérstaklega til þátta varðandi áframhaldandi nýtingar auðlindarinnar og uppbyggingar innviða ásamt atvinnusköpun í samhengi við vernd náttúru. „Nauðsynlegt er að tryggja eins og kostur er jafnvægi verndar og nýtingar. Að mati SAF er frumvarp um hálendisþjóðgarð vanbúið hvað þetta varðar.“
Ferðaþjónusta stendur frammi fyrir „afar erfiðum uppbyggingartíma eftir heimsfaraldur kórónuveiru á næstu árum og hlýtur að gera kröfu um að lagasetning stjórnvalda um grundvallaratriði varðandi atvinnustarfsemi í greininni veiti skýra framtíðarsýn,“ segir í umsögn SAF.
Í ljósi allra þessara þátta segjast Samtök ferðaþjónustunnar ekki geta mælt með samþykkt frumvarps um hálendisþjóðgarð í óbreyttri mynd.