Sóttvarnalæknir segir að vel hafi gengið innanlands og á landamærunum undanfarið en benti á að sextíu manns hefðu greinst með breska afbrigðið hér á landi, þar af fjórtán innanlands, allt fólk sem tengdist einstaklingum sem höfðu greinst með það á landamærunum. Þetta afbrigði veirunnar, sem er meira smitandi en önnur, er ein helsta ástæða þess að varlega þarf að fara í tilslakanir aðgerða vegna faraldursins.
„Það gengur áfram vel hjá okkur að halda faraldrinum niðri innanlands og ef við tökum síðustu viku hafa tveir greinst innanlands og annar var í sóttkví,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Þannig að það eru öll merki um að það hafi tekist ágætlega að ná utan um þriðju bylgjuna. En við getum sagt að það sé ekki búið að uppræta veiruna í samfélaginu og þess vegna þurfum við að fara varlega áfram, fara hægt í tilslakanir.“
Hann sagðist nú vera með tillögur að „vægum tilslökunum“ í smíðum sem hann muni skila ráðherra á næstu dögum. Hann vildi ekki fara nánar út í hverjar þessar tillögur hans væru. Ítrekaði hann að faraldurinn væri enn í mikilli uppsveiflu í nágrannalöndum, m.a. vegna þess að þar var slakað verulega á aðgerðum um jól og áramót. „Við eigum að passa okkur að lenda ekki í sama fari og nágrannar okkar.“
Áhyggjur beinast að landamærum
Þórólfur sagði að helstu áhyggjurnar núna snéru að landamærunum. Þar er hætta á að smit komist inn í landið – sérstaklega er hættan mikil vegna hins breska afbrigðis. Fyrirkomulagið á landamærunum, tvöföld sýnataka með sóttkví á milli, hafi fyrir löngu sannað gildi sitt. Engu að síður er alltaf hætta á því að einhver smit sleppi inn og nefndi Þórólfur sem dæmi að á því hefði borið að fólk sem hingað kæmi gæfi rangar upplýsingar um aðsetur og símanúmer svo erfitt væri að ná í það ef það greinist jákvætt í fyrri sýnatöku. „Það er undarlegt að segja frá því að Ísland er með einna minnst íþyngjandi takmarkanir í Evrópu og því mögulegt að fólk vilji koma hingað í auknum mæli og valdi þannig álagi á landamærin.“
Skoða þurfi því hvernig hægt er að bregðast við þessu og tryggja sem best að veiran komist ekki inn um landamærin. Þórólfur sagði fyrsta skrefið að tryggja lagagrundvöll til að beita aðgerðum og skoraði hann á Alþingi að samþykkja breytingar á sóttvarnalögum sem fyrst. Til dæmis yrði þá hægt að skylda fólk sem hingað kemur, án staðfestingar á neikvæðu COVID-prófi, til að dvelja í farsóttarhúsi á meðan sóttkví stendur.
14 þúsund skammtar frá AstraZeneca á leiðinni
Samkvæmt nýrri dreifingaráætlun lyfjafyrirtækisins AstraZeneca munum við fá 14 þúsund skammta af bóluefni fyrirtækisins í febrúar í vikulegum sendingum. Það efni verður aðeins gefið fólki yngra en 65 ára. Þrír mánuðir verða látnir líða á milli skammtanna tveggja sem þarf að gefa því þannig næst hámarksvirkni efnisins, sagði Þórólfur.
„Við megum búast við að fá að minnsta kosti 74 þúsund skammta fyrir mánaðamót mars og apríl sem dugar til að bólusetja 34 þúsund manns,“ sagði sóttvarnalæknir. „Ég hef trú á því að við náum mikilli útbreiðslu bólusetningar á næstu vikum og mánuðum og að hægt verði að aflétta mörgum þeim aðgerðum sem verið hafa í gildi innanlands og á landamærunum.“
Það muni þó taka mið af þróun faraldursins og því magni bóluefna sem hingað kemur á næstunni.
Mikið hefur verið rætt síðustu daga um samning við Pfizer sem gæti orðið til þess að mikið magn bóluefnis bærist hingað á skömmum tíma. „Það er ekki kominn samningur og boltinn er ennþá hjá Pfizer,“ sagði Þórólfur á fundinum. Hann sagðist eiga von á því að fá frekari skilaboð frá lyfjafyrirtækinu á næstu dögum.
Ef samningur næst við Pfizer yrði hægt að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar á mjög skömmum tíma. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins gæti bólusett tugi þúsunda á dag samkvæmt þeim sviðsmyndum sem búið er að teikna upp. „Vonandi fáum við bóluefni hraðar og þá getum við drifið þetta af sem fyrst,“ sagði Þórólfur. „Ég held að við verðum tilbúin i hvaða leik sem er.“