Mannasiðir voru til umræðu á upplýsingafundi almannavarna í dag. Og ekki í fyrsta skipti. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn var duglegur að minna á mikilvægi samstöðunnar á fundunum á síðasta ári og hafði oftar en einu sinni orð á því að starfsfólk verslana væri að fá yfir sig gusur frá viðskiptavinum.
Af hverju?
Vegna grímuskyldunnar.
Grímunotkun er nýtt fyrir okkur, sagði Víðir á fundi dagsins, og að oftast gengi hún vel en grímuskylda er í verslunum á landinu. „En við erum nú að fá tilkynningar um að starfsfólki sé sýnd mikil óvirðing og ókurteisi og jafnvel að það hafi verið veist að starfsfólki með ofbeldi,“ sagði Víðir. „Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt og við viljum ekki vera þarna. Ekki vera þessi týpa sem er með leiðindi og ókurteisi við starfsfólk í búðunum.“