Svandís Svavarsdóttir hefur fallist á tillögur sóttvarnarlæknis um tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum sem munu taka í gildi næstkomandi mánudag, 8. febrúar. Samkvæmt þeim mega barir opna á ný, auk búningsklefa í líkamsræktum. Einnig verður 150 manns heimilt að koma saman í verslunum, söfnum, kirkjum og leikhúsum ef húsnæðið er nógu stórt, en almenn fjöldatakmörk verða ennþá bundin við 20 manns. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins sem birtist í dag.
Samkvæmt tilkynningunni munu reglurnar gilda til og með 3. mars.
Veitingastaðir þar sem áfengisveitingar eru leyfðar, þar með talin veitingahús, kaffihús, krár og skemmtistaðir, mega ekki hafa opið lengur en til kl. 22.00 samkvæmt nýju reglunum. Sama gildir um spilasali og spilakassa. Veitingar mega aðeins vera afgreiddar gestum í sæti og ekki er heimilt að hleypa inn nýjum gestum eftir kl. 21.00.
150 manns í kirkju
Nýju reglurnar fela einnig í sér töluverðar tilslakanir fyrir trúarsamkomur, en nú mega allt að 150 einstaklingar sækja þær. Einnig verður heimilt að taka við 150 viðskiptavinum að hámarki í verslunarrýmum og söfnum sem uppfylla skilyrði um fjölda fermetra. Sömuleiðis verður leikhúsum heimilt að taka á móti 150 gestum í sæti.
Mega opna búningsklefa
Heilsu- og líkamsræktarstöðvar mega opna búningsaðstöðu að nýju og æfingar í tækjasal verða heimilaðar að því gefnu að ekki séu fleiri en 20 manns í hverju rými og skulu þeir skrá þátttöku sína fyrirfram. Leyfilegur hámarksfjöldi gesta nemur helmingi af þeim fjölda sem kveðið er á um í starfsleyfi. Allur búnaður skal sótthreinsaður eftir notkun og tryggja skal að einstaklingar fari ekki á milli rýma.