Svokölluð „bólusetningarvegabréf“ eru mikið til umræðu þessa dagana og hefur nokkur fjöldi Evrópulanda þegar ákveðið að gefa slík vottorð út til bólusettra. Þrýstingur á að opna landamæri fyrir ferðalögum bólusettra hefur aukist samhliða bólusetningaherferðum sem þegar eru hafnar í álfunni.
Evrópuþingið styður hugmyndir um útgáfu bólusetningarvottorða og ákvað á fundi í janúar að hefja vinnu við samræmingu þeirra en telur að of snemmt að ákveða hvernig þau verði notuð til að losa um ferðahömlur. Framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, hefur einnig lýst yfir stuðningi við hugmyndina um að stöðluð vottorð verði gefin út.
Hér að neðan er að finna lista yfir þau Evrópuríki innan ESB og Schengen-svæðisins, sem hafa tilkynnt að þau íhugi eða ætli að gefa út bólusetningarvottorð og hvaða forréttindi þau munu veita bólusettum.
Kýpur
Kýpverjar voru fyrstir Evrópusambandsríkja til að tilkynna áætlanir sínar um að aflétta ferðahömlum á þeim sem fengið hafa bólusetningu gegn COVID-19. Stjórnvöld á Kýpur ætla þannig að opna landamæri sín fyrir bólusettum, að minnsta kosti þeim sem búa innan ESB, geti þeir fært sönnur á því að þeir hafi verið bólusettir að fullu.
Tékkland
Stjórnvöld í Tékklandi eru einnig a skoða möguleikana á því að heimila bólusettum að koma til landsins án þess að þurfa að fara í einangrun við komuna. Heilbrigðisráðherrann hefur í þessu sambandi vísað til umræðu leiðtoga innan ESB um útgáfu samræmdra „bólusetningarvegabréfa“. Engar áætlanir um útgáfu slíkra vottorða til borgara landsins hafa þó enn verið tilkynntar.
Danmörk
Danir hafa þegar tilkynnt að þeir ætli bráðlega að hefja útgáfu rafrænna bólusetningarvottorða. Verða vottorðin gefin þeim sem fengið hafa bólusetningu svo þeir geti, þegar þar að kemur, ferðast án hamla til ríkja sem munu taka þau gild. Fjármálaráðherra Danmerkur sagði nýverið að innan fárra mánaða yrðu þau líka aðgengileg þeim sem hyggjast ferðast til Danmerkur, m.a. í viðskiptaerindum.
„Þetta verður auka vegabréf sem þú getur haft í símanum þínum og staðfestir að þú hafir verið bólusettur,“ sagði ráðherrann.
Eistland
Forsætisráðherra Eistlands skrifaði þegar í október undir samning við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina um að þar í landi yrðu þróuð tæknilausn á útgáfu bólusetningarvottorða. Forsætisráðherrann hefur sagt að verkefnið veiti Eistum einstakt tækifæri til að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn COVID-19 með því að hanna rafræna þjónustu útgáfu vottorða á alþjóðavísu.
Grikkland
Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, var fyrsti leiðtogi ESB-ríkis til að kalla formlega eftir útgáfu bólusetningarvottorða innan sambandsins. Hann hefur sagt að annað sumar án ferðamanna myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir land sitt og hefur því mælst til útgáfu samræmdra vottorða svo opna megi landamærin fyrir bólusettum.
Grikkir hafa þegar losað um ákveðnar hömlur á landamærum gegn framvísun bólusetningarskírteina eftir að samkomulag náðist við stjórnvöld í Serbíu um ferðalög landanna á milli.
Ungverjaland
Í Ungverjalandi geta þeir sem fengið hafa bólusetningu sem og þeir sem fengið hafa COVID-19 ferðast milli svæða innanlands þar sem strangar aðgerðir eru í gildi vegna faraldursins. Þeir þurfa þá að framvísa skírteini sem yfirvöld gefa út. Einnig geta þeir ferðast yfir landamærin án takmarkana. Bólusettir Ungverjar munu svo bráðlega geta verið úti eftir klukkan 20 á kvöldin þegar útgöngubann tekur gildi dag hvern.
Ísland
Yfirvöld hér á landi hófu útgáfu rafrænna bólusetningarvottorða 21. janúar. Hægt er að sækja um vottorð í gegnum Heilsuveru. Tæplega 5.000 manns hafa nú fengið báða skammta bóluefnis hér á landi og geta þar með sótt um vottorð því til staðfestingar.
Ítalía
Samtök ferðaþjónustunnar á Ítalíu hafa hvatt stjórnvöld til að hraða bólusetningu eins og frekast er unnt og gefa út vottorð til bólusettra í þeim tilgangi að ýta undir ferðalög fólks. Stjórnvöld hafa enn sem komið er ekki svarað ákallinu. Mjög brýnt er að sögn samtakanna að opna möguleika fyrir ferðalög fólks að nýju og þyrfti það að einhverju leyti að vera orðið gerlegt í vor.
Pólland
Stjórnvöld í Póllandi eru í hópi þeirra landa sem þegar eru farin að stefna að því að gefa út bólusetningarvottorð og taka við þeim sem myndi auka ferðafrelsi bólusettra umfram aðra.
Til stendur að vottorðið verði gefið út rafrænt og líkt og á Íslandi tengt rafrænni heilbrigðisgátt. Stjórnvöld hafa þó farið varlega í að segja hvort að vottorðin muni gagnast til að ferðast óhindrað yfir landamæri en þar sem þau hafa notað orðið „bólusetningarvegabréf“ er talið líklegt að það sé planið.
Portúgal
Portúgölsk stjórnvöld styðja eindregið útgáfu samræmdra bólusetningarvottorða í Evrópu svo að bólusettir geti ferðast án hafta. Innanríkisráðherra landsins telur að bólusetning gegn COVID-19 sé nægilega örugg svo aflétta megi ákveðnum hömlum á landamærum ESB-ríkja.
Slóvakía
Slóvakar hafa einnig stutt útgáfu samræmdra vottorða til bólusettra innan ESB. Stjórnvöld vilja einnig að slík vottorð verði gefin út til þeirra sem hafa þegar fengið COVID-19.
Spánn
Ferðamálaráðherra Spánar tilkynnti nýverið að unnið væri að því að gera útgáfu bólusetningarvottorða mögulega. Sagði hann að spænsku vottorðin myndu hafa sama gagn og sambærileg vottorð sem önnur ríki ætla að gefa út.
Svíþjóð
Stjórnvöld í Svíþjóð stefna að útgáfu bólusetningarvottorða fyrir sumarið. Þau hafa líkt og fleiri bent á að slík vottorð séu gagnslítil ef önnur ríki taki þau ekki gild. Verið er að vinna að útgáfukerfi vottorðanna sem gæti gagnast á heimsvísu.