Helga Guðrún Jónasdóttir hefur boðið sig fram til þess að verða næsti formaður VR. Framboð hennar er það eina sem barst gegn sitjandi formanni, Ragnari Þór Ingólfssyni. Framboðsfresturinn rann út á hádegi í dag, samkvæmt tilkynningu á vef félagsins.
Helga Guðrún er fyrrverandi upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar og hefur einnig starfað sem samskiptastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá hefur hún einnig verið formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og sömuleiðis tekið sæti sem varaþingmaður flokksins.
Hún hefur áður boðið sig fram til formanns VR, en laut í lægra haldi fyrir Stefáni Einari Stefánssyni, núverandi blaðamanni, í kosningu árið 2011.
11 bítast um sjö stjórnarsæti
Samkvæmt tilkynningu á vef VR bárust 11 gild framboð til stjórnar félagsins fyrir kjörtímabilið 2021-2023. Alls verður kosið til sjö sæta í stjórn og þriggja í varastjórn.
Á meðal frambjóðenda er Sigríður Hallgrímsdóttir, sem eitt sinn var aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar fyrrverandi menntamálaráðherra. Hún var um árabil reglulegur dálkahöfundur í Fréttablaðinu.
Frambjóðendur til stjórnar VR eru, í stafrófsröð þau Arnþór Sigurðsson, Harpa Sævarsdóttir, Helga Ingólfsdóttir, Jón Steinar Brynjarsson, Jónas Yngvi Ásgrímsson, Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir, Sigmundur Halldórsson, Sigríður Hallgrímsdóttir, Sigurður Sigfússon, Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir og Þórir Hilmarsson
Fram kemur í tilkynningu á vef VR að ekkert mótframboð hafi borist gegn lista trúnaðarráðs VR í trúnaðarráð félagsins og hann teljist því löglega kjörinn.