„Við erum fórnarlömb eigin velgengni,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, um niðurstöðu fundar fulltrúa lyfjafyrirtækisins Pfizer með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Kára Stefánssyni forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Á fundinum var rætt um fyrirhugað rannsóknarverkefni eða vísindatilraun lyfjafyrirtækisins hér á landi sem hefði falið í sér bólusetningu stórs hluta þjóðarinnar. Að því er Þóra Kristín segir er Pfizer hins vegar ekki reiðubúið að taka ákvörðun á þessari stundu og ástæðan er sú að of fá tilfelli af COVID-19 eru að greinast hér á landi um þessar mundir svo að rannsóknin myndi koma að gagni.
Eitt eða jafnvel ekki neitt tilfelli af kórónveirunni hefur verið að greinast innanlands síðustu daga og vikur. Á sama tíma hefur faraldurinn verið í mikilli uppsveiflu víða erlendis.
Í tengslum við vísindatilraunina hefur verið talað um að um 60 prósent þjóðarinnar yrði bólusett á skömmum tíma með bóluefni Pfizer og BioNtech.
Í dag hefur komið fram í fréttum að á fundinum með Pfizer yrðu kynnt drög að samningi um verkefnið. Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að farið yrði svo yfir þau til að kanna hvort að skilyrði þeirra væru ásættanleg fyrir íslensku þjóðina.