„Þetta er ekki endilega það sem við vildum en þessi niðurstaða er mjög skiljanleg,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spurður hvort að það séu vonbrigði að ekkert verði að vísindarannsókn lyfjafyrirtækisins Pfizer hér á landi. „Þetta er rökrétt niðurstaða að athuguðu máli.“
Eftir fund með forsvarsmönnum Pfizer í dag telur Kári „hverfandi líkur“ á að af rannsókninni, sem mikið hefur verið rætt um síðustu vikur, verði. „Þetta er eitt af þessum tilfellum sem maður getur ekki leyft sér að vona það sem maður þarfnast,“ segir hann en ástæðan fyrir því að Pfizer telur Ísland ekki henta fyrir rannsóknina er sú að hér eru að greinast svo fá tilfelli – „of fá“ til að rannsóknin myndi sýna árangur. Af þessum fáu tilfellum eigum við Íslendingar hins vegar að vera stolt.
Kári segir einu réttlætinguna fyrir því að flytja 500 þúsund skammta af bóluefni Íslands, á undan öðrum löndum, sé sú að þannig hefði verið hægt að sækja nýja þekkingu sem myndi gagnast öllum heiminum.
En núna eru tilfellin af kórónuveirunni svo fá á Íslandi að þau myndu ekki nægja til að sýna áhrif fjöldabólusetningar á stuttum tíma. Þegar Kári fundaði síðast með fulltrúum Pfizer voru að greinast um 20 tilfelli á dag innanlands. Síðan fór Pfizer í það að „leita að bóluefni“, eins og Kári orðar það, til að tryggja að þeir
ættu nóg bóluefni til að bólusetja stóran hluta íslensku þjóðarinnar. „Síðan hafa þeir verið svolítið þöglir í þrjár vikur,“ segir Kári. Hann segist hafa gert sér grein fyrir því „fyrir lifandis löngu“ að þetta væri tæpt. „Ég var að vonast til þess að þeir sæju í þessu aðra möguleika. Möguleikann á að líta á árangurinn af bólusetningunni í tengslum við fullt af upplýsingum sem hér eru til staðar. Þeir gáfu það í skyn allan þennan tíma að þeir væru áhugasamir en svo greinilega settust þeir niður sem hópur og þegar við röktum okkur saman í gegnum þetta [á fundinum] var þetta rökrétt niðurstaða að mörgu leyti.“Kári segir engin samningsdrög hafa verið lögð fram á fundi hans og Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis með fulltrúum Pfizer í dag. Hann segist reyndar aldrei hafa heyrt af neinum samningsdrögum. Hins vegar hafi verið talað um að senda blað til staðfestingar á sameiginlegum áhuga á verkefninu. Til þess kom þó ekki.
„Pfizer setti ekki fram nein skilyrði,“ segir Kári spurður hvort að til umræðu hafi komið að bólusetja í ríkum mæli á Íslandi og opna svo landamærin, líkt og flökkusaga sem Þórólfur var beðinn að staðfesta eða neita á upplýsingafundi gærdagsins, sagði. „Ekkert slíkt hefur verið rætt,“ segir Kári.
Hann segir málið í raun einfalt. Pfizer hafi gert sína útreikninga og komist að því að ekki væri mikið úr því að fá að bólusetja þjóð þar sem svona fá tilfelli væru að greinast dag frá degi, „sem við eigum að vera stolt af og ánægð með. Til þess að þú getir sýnt áhrif af bóluefninu þá þarftu að hafa ákveðinn fjölda af tilfellum“.
Kári segist ekki hafa hugmynd um hvort Pfizer sé að horfa til einhvers annars lands núna til að framkvæma vísindarannsóknina. Enginn annar fundur hefur verið ákveðinn milli Kára og Þórólfs og fulltrúa Pfizer.