Orkuþörf rafmyntarinnar Bitcoin nemur rúmlega 120 teravattstundum á ársgrundvelli samkvæmt greiningu vísindamanna við Cambridge háskóla. Til að setja þessa orkunotkun í samhengi, þá nam raforkunotkun á Íslandi árið 2019 19,5 teravattstundum samkvæmt tölum frá Orkustofnun.
Það er rétt innan við einn sjötti af þeirri orku sem notuð er til að grafa eftir rafmyntinni. Raforkuframleiðsla Fljótsdalsstöðvar, sem í daglegu tali er kölluð Kárahnjúkavirkjun, er um 4,8 teravattstundir á ári. Því þyrfti 25 slíkar virkjanir til að anna orkuþörf rafmyntarinnar Bitcoin.Fjallað er um greiningu á orkunotkun í greftri eftir Bitcoin á vef BBC en þar kemur fram að ólíklegt þyki að þessi tala muni lækka á næstunni, ekki nema að verðið á rafmyntinni lækki umtalsvert. Verð fyrir hverja einingu Bitcoin hefur aldrei verið jafn hátt og á allra síðustu dögum en það hefur numið rétt um 50 þúsund Bandaríkjadölum fyrir hverja einingu, sem samsvarar um 6,4 milljónum króna.
Kaup Tesla á Bitcoin hefur keyrt upp verðið
Þessi verðhækkun kemur í kjölfar tilkynningar frá rafbílaframleiðandanum Tesla þar sem sagt var frá því að fyrirtækið hefði keypt Bitcoin fyrir um einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala og hygðist bjóða neytendum að borga fyrir bíla fyrirtækisins með Bitcoin. Sú ákvörðun hefur sætt gagnrýni og er hún sögð grafa undan áherslum fyrirtækisins er varða umhverfismál.
Hækkandi verð myntarinnar hefur það svo í för með sér að hvatinn til þess að grafa eftir myntinni eykst. Í áðurnefndri frétt BBC er haft eftir Michel Rauchs, sem vinnur að rannsókninni í Cambridge, að sú hækkun sem orðið hefur á verði myntarinnar upp á síðkastið muni óneitanlega auka orkuþörf hennar með auknum greftri.
Á vef Cambridge Centre for Alternative Finance má skoða orkuþörf Bitcoin. Þar er meðal annars hægt að bera orkuna sem rafmyntin notar við orkunotkun annarra þjóða. Til dæmis fylgir Bitcoin fast á eftir Norðmönnum sem nota um 124 teravattstundir árlega.