Fjölmiðlanefnd telur mikilvægt að stjórnvöld skýri þá aðferðarfræði sem þau ætla að nota til að greiða út styrki til einkarekinna fjölmiðla betur.
Sá skilningur sem nefndin leggur í frumvarp um styrktargreiðslurnar, sem nú er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd, er að ef hlutur stuðningshæfs rekstrarkostnaðar hjá fjölmiðli sem mun sækja um styrk sé hærri en 100 milljónir króna beri að miða við að hlutar viðkomandi fyrir hlutfallslega skerðingu teljist aldrei hærri en 100 milljónir króna. Stuðningurinn eigi svo að skerðast í jöfnum hlutföllum þar til að heildarupphæðin sé sú sama og áætlaðar fjárveitingar til verkefnisins. Nefndin telur mikilvægt að aðferðarfræðin sem á að styðjast við sé skýr og gert sé sérstaklega ráð fyrir henni í skýringum með frumvarpinu. Þannig sé málum ekki háttað nú.
Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um styrki til einkarekinna fjölmiðla sem nú er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Samkvæmt frumvarpinu stendur til að útdeila 400 milljónum króna í styrki til einkarekinna fjölmiðla.
Þessar skýringar geta skipt miklu máli um það hvernig sú upphæð sem ætluð er í styrkina skiptist milli fjölmiðla. Ef skilningur fjölmiðlanefndar, sem hún vill að skerpt verði á í skýringum, er réttur mun það til að mynda leiða til þess að þau tvö fjölmiðlafyrirtæki sem fengu hæstu styrki allra fjölmiðla í fyrra, Árvakur og Sýn, myndu fá lægri styrki nú, verði frumvarpið að lögum.
Margra ára ferli
Stuðningsgreiðslur úr ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla hafa verið í deiglunni árum saman. Segja má að ferlið hafa hafist í lok árs 2016 þegar sett var saman nefnd til að móta tillögur um styrkingu rekstrarumhverfis einkarekinna fjölmiðla. Drög að frumvarpi um þær voru kynnt af mennta- og menningarmálaráðherra fyrir tveimur árum síðan en komust hins vegar ekki á dagskrá vorþings þess árs vegna mikillar andstöðu við málið hjá hluta þingflokks Sjálfstæðisflokks.
Nýtt frumvarp, sem átti að leggjast fram í september 2019, lét þó á sér standa. Lilja mælti á endanum ekki fyrir frumvarpi um að lögfesta slíkt styrkjakerfi fyrr en í desember 2019. Frumvarpið var hins vegar svæft í nefnd, aftur að mestu fyrir tilstilli þingmanna Sjálfstæðisflokks, og fékk ekki afgreiðslu.
Þess í stað var ákveðið að taka þá fjármuni sem búið var að heita í styrkina og breyta þeim í einskiptis neyðarstyrk vegna COVID-19. Lilju var falið að útfæra greiðslu þeirra í reglugerð. Það gerði hún í byrjun júlí.
Í reglugerðinni var sú breyting gerð á upprunalegri úthlutunaraðgerð að sú upphæð sem stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins gátu sótt í ríkissjóð var tvöfölduð, úr 50 milljónum króna í 100 milljónir króna.
Fyrir vikið skertust greiðslur sem upprunalega voru ætlaðar 20 smærri fjölmiðlafyrirtækjum um 106 milljónir króna en sama upphæð fluttist til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs.
Það frumvarp sem nú er til umfjöllunar á þingi er í anda reglugerðarinnar.
100 milljónir fyrir hlutfallslega skerðingu
Samkvæmt frumvarpinu er hægt að sækja um 25 prósent endurgreiðslu á stuðningshæfum kostnaði en stuðningur hvers og eins getur ekki orðið meiri en 25 prósent af fjárveitingum til verkefnisins. Það þýðir að styrkur getur aldrei orðið meiri en 100 milljónir króna.
Fjölmiðlanefnd telur hins vegar mikilvægt að aðferðarfræði við þennan útreikning á hlutfallslegri skerðingu styrkja sé skýr og að gert sé sérstaklega grein fyrir henni í skýringum. Hún segir að samkvæmt orðalagi og framsetningu í frumvarpinu sé aðferðarfræðin sú að ef það komi í ljós að hlutur stuðningshæfs rekstrarkostnaðar hjá einhverjum umsækjenda sé hærri en 100 milljónir króna beri að miða við að hlutar viðkomandi fyrir hlutfallslega skerðingu teljist aldrei hærri en 100 milljónir króna. Stuðningurinn eigi svo að skerðast í jöfnum hlutföllum þar til að heildarupphæðin sé sú sama og áætlaðar fjárveitingar til verkefnisins.
Á einföldu máli þýðir sú breyting sem fjölmiðlanefnd leggur til á frumvarpinu að þau tvö fjölmiðlafyrirtæki sem fengu hæstu styrkina síðast, Árvakur og Sýn, myndu fá lægri styrki nú, verði frumvarpið að lögum. Þegar styrkir voru greiddir út til fjölmiðla sem COVID-19 styrkir í fyrra þá fékk Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið og tengda miðla, 99,9 milljónir króna og Sýn, sem rekur fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, fékk 91,1 milljón króna þrátt fyrir að að það hlutfall af endurgreiðanlegum starfskostnaði sem deilt var út hafi farið úr 25 í 17 prósent vegna þess að sótt var um hærri upphæð en var til útdeilingar. Ástæðan er sú að heildarupphæð endurgreiðanlegs kostnaðar var höfð til hliðsjónar þegar greiðslan var skert..
Getur Omega fengið styrk?
Fjölmiðlanefnd gerir fleiri athugasemdir í umsögninni, meðal annars við að allir séu styrkjahæfir sem fjalli um „samfélagsleg málefni“. Nefndin telur hugtakið ekki nægilega skýrt nægilega og að fyrir hendi sé möguleiki á því að fjölmiðlar sem fjalla t.d. einvörðungu um beinar útsendingar eða textalýsingar af íþróttakappleikjum eða trúmál, eins og sjónvarpsstöðin Omega, muni teljast styrkjarhæf.
Þá leggur fjölmiðlanefnd til að skýringum á hugtakinu „fréttatengt efni“ verði bætt við ákvæði frumvarpsins. „Að mati nefndarinnar er t.d. ekki fullkomlega skýrt hvort íþrótta- og veðurfréttir teljist falla undir hugtakið. Hið sama á við um aðra umfjöllun um íþróttir, þar á meðal beinar útsendingar og textalýsingar frá íþróttakappleikjum og -mótum.“
Í greinargerð með frumvarpinu segir að það hefði komið fram „í samtölum við framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar að flókið hafi verið að meta hvort efnistök fjölmiðils væru sannanlega fjölbreytt og hefðu breiða skírskotun.“
Þessu er hins vegar hafnað í umsögn fjölmiðlanefndar og sagt að þar sé vísað í óformlegt samtal við Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra hennar, þar sem hún hafi upplýst ráðuneytið um að ekki væri unnt að útbúa lista yfir þá fjölmiðla sem uppfylltu slík skilyrði fyrirfram, enda þyrfti að meta innihald hvers miðils fyrir sig. „Sú hefði einmitt verið raunin þegar styrkir voru veittir árið 2020 til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Þetta ber að skilja svo að einungis var bent á að um matskennda ákvörðun væri að ræða og að meta þyrfti innihald hvers miðils fyrir sig. Því þyrfti að vanda hugtakanotkun og tryggja að það væri alveg skýrt hvaða fjölmiðlar féllu undir ákvæði laganna. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að meta innihald fjölmiðla með sambærilegum hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum en þar eru gerðar ítarlegar kröfur um breiða skírskotun og fjölbreytt efni og vísað til þess að faglegar unnar fréttir og fréttatengt efni sé grundvöllur lýðræðislegrar umræðu í samfélaginu.“
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir stuðningsgreiðslum.