Viðskipti með hlutabréf í Sýn tæplega nífölduðust og verð þeirra jókst um 14 prósent í byrjun mánaðarins, nokkrum dögum áður en Viðskiptablaðið birti frétt um að bandarískir fjárfestar væru að ljúka kaupum á óvirkum farsímainnviðum félagsins. Verðhækkun félagsins var langt umfram verðhækkun markaðarins á tímabilinu, en Fjármálaeftirlit Seðlabankans gefur ekki upp hvort hlutabréfakaupin séu til skoðunar hjá yfirvöldum eða ekki.
Hugsanlegur söluhagnaður upp á 6 milljarða
Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins, sem birtist 11. febrúar er félag í stýringu bandaríska framtakssjóðsins Digital Colony langt komið með að ljúka kaupum á svokölluðum óvirkum farsímainnviðum Sýnar og Nova fyrir um 13 milljarða íslenskra króna.
Kjarninn hefur áður fjallað um fyrirhugaða sölu Sýnar á innviðum, en samkvæmt fjárfestatilkynningu sem félagið sendi frá sér í lok október í fyrra gæti söluhagnaður félagsins numið 6 milljörðum króna. Sýn hafði svo í hug að endurleigja þessa innviði frá nýju eigendunum til 20 ára.
Viðskiptablaðið greinir frá því að félagið sem hygðist kaupa innviðina ynni að því að fjármagna kaupin að hluta með útgáfu skuldabréfs í krónum upp á 8 til 9 milljarða króna. Þessi fjárfesting hafi verið kynnt lífeyrissjóðum og öðrum innlendum fjárfestum á síðustu vikum af fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem hafi umsjón með fjármögnuninni hér á landi.
Meiri viðskipti og hærra verð
Á sama tíma hefur áhugi fjárfesta á hlutabréfum í Sýn aukist töluvert. Á milli 4. og 11. febrúar keyptu þeir að meðaltali fyrir um 98,3 milljónir íslenskra króna í félaginu á hverjum degi, en til samanburðar hefur aðeins verið keypt fyrir um 11,4 milljónir króna á hverjum degi frá ársbyrjun að 4. febrúar. Því nánast nífaldaðist magn viðskipta síðustu fimm dagana áður en frétt Viðskiptablaðsins birtist.
Samhliða auknum áhuga á hlutabréfum í Sýn hefur verð þeirra einnig hækkað töluvert á síðustu dögum. Hækkunina má sjá á mynd hér að ofan, en þar sést að verðið í fyrirtækinu, sem hafði lækkað Um 10 prósent frá ársbyrjun til 4. febrúar, hækkaði um 14 prósent á örfáum dögum. Þessi hækkun var langt umfram hækkun vísitölu tíu stærstu fyrirtækja Kauphallarinnar, sem hækkaði um 5 prósent á sama tímabili. Engar tilkynningar bárust frá félaginu á vef Kauphallar á þessu tímabili.
FME hvorki staðfestir né neitar
Samkvæmt lögum um innherjasvik er fjárfestum óheimilt að ráðstafa hlutabréfum eða öðrum fjármálagerningum á markaði ef þeir búa yfir upplýsingar sem eru óopinberar en myndu hafa áhrif á hlutabréfaverð ef þær væru gerðar opinberar. Einnig er óheimilt að láta þriðja aðila slíkar upplýsingar í té og ráðleggja þriðja aðila að ráðstafa hlutabréfum á grundvelli upplýsinganna.
Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur eftirlit með framkvæmd þessara laga, en stofnuninni er heimilt að krefja einstaklinga um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg. Í svari við fyrirspurn frá Kjarnanum segir upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins að ekki sé hægt að svara því játandi eða neitandi að tiltekið mál sé til skoðunar eða ekki, þar sem rík þagnarskylda ríkir á Seðlabankanum.