Óli Halldórsson sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi varð hlutskarpastur í forvali Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, sem fram fór um helgina. Hann mun því líklega leiða lista flokksins í kjördæminu til kosninga síðar á árinu.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður var í öðru sæti í forvalinu og Jódís Skúladóttir bæjarfulltrúi í Múlaþingi í þriðja sæti. Kári Gautason framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna hafnaði í fjórða sæti.
Alls voru 12 manns í framboði og 648 manns greiddu atkvæði, sem samsvarar 62 prósent kosningaþátttöku, en rösklega þúsund voru á kjörskrá í kjördæminu, sem hefur löngum verið eitt sterkasta vígi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.
Fram kemur í tilkynningu frá VG að listi með alls 20 frambjóðendum verði lagður fyrir kjördæmisþing til samþykktar í samræmi við lög og stefnu hreyfingarinnar.
Niðurstaða forvalsins:
- 1. sæti Óli Halldórsson með 304 atkvæði í 1. sæti
- 2. sæti Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir með 293 atkvæði í 1.-2. sætið
- 3. sæti Jódís Skúladóttir með 297 atkvæði í 1.-3. sæti
- 4. sæti Kári Gautason með 337 atkvæði í 1.-4. sæti
- 5. sæti Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir með 322 atkvæði í 1.-5. sæti