Ingibjörg Þórðardóttir ritari Vinstri grænna hlaut ekki brautargengi í forvali flokksins í Norðausturkjördæmi. Hún bauð sig þar fram til þess að taka fyrsta eða annað sætið á lista flokksins, en hún er í dag varaþingmaður flokksins og var í þriðja sæti á lista í kjördæminu í kosningunum árið 2017.
„Það er augljóslega meira framboð af mér en eftirspurn og félagar mínir í VG í NA hafna mér fullkomlega. Það breytir nú samt ekki því að ég mun standa við bakið á VG og þessum lista sem samanstendur af frábæru fólki. Ég óska Óla Halldórs innilega til hamingju með kosningasigurinn,“ skrifar Ingibjörg, sem var kjörin ritari flokksins árið 2019, á Facebook í dag.
Bjarkey ekki búin að ákveða hvort hún þiggi 2. sætið
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, segist ekki viss um hvort hún muni þiggja annað sætið á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Hún bauð sig fram til að leiða listann, en laut í lægra fyrir Óla, sem er sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi og annar varaþingmaður flokksins í kjördæminu í dag.
Bjarkey, sem setið hefur á þingi óslitið frá árinu 2013 ræddi málin við mbl.is og sagði að niðurstaða forvalsins hefði auðvitað verið vonbrigði. Hún sagðist ætla að taka sér þann tíma sem hún þyrfti til þess að komast að niðurstöðu um hvort hún tæki sæti á lista í kjölfar þessarar niðurstöðu.
Alls voru 12 manns í framboði í forvalinu og 648 manns greiddu atkvæði, sem samsvarar 62 prósent kosningaþátttöku, en rösklega þúsund voru á kjörskrá í kjördæminu, sem hefur löngum verið eitt helsta vígi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.
Bjarkey hefur verið þar á öðru sæti á lista á eftir Steingrími J. Sigfússyni fyrrverandi formanni flokksins í undanförnum kosningum. Hún sóttist eftir því að leiða lista flokksins í forvalinu og uppskar 293 atkvæði í 1.-2. sæti. Óli fékk 304 atkvæði í oddvitasætið.
Óli bauð sig fram til þess að verða varaformaður Vinstri grænna á landsfundi hreyfingarinnar haustið 2017, en laut þá í lægra haldi fyrir Edward H. Huijbens, sem gegndi embættinu þar til árið 2019, er Guðmundur Ingi Guðbrandsson utanþingsráðherra flokksins tók við því kefli.