Frá og með 19. febrúar þurfa allir sem koma til Íslands að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr PCR-prófi bæði fyrir brottför á leið til Íslands og einnig á landamærum við komuna. Einnig verður gerð krafa um tvöfalda skimun. Prófið sem framvísað er þarf að vera tekið innan við 72 klukkustundum fyrir brottför.
Þeim sem greinast með COVID-19 við skimun á landamærum verður sömuleiðis „skylt að dvelja í sóttvarnahúsi ef önnur viðunandi aðstaða til einangrunar er ekki fyrir hendi eða ef einstaklingur er með afbrigði veirunnar sem eru þekkt fyrir að vera meira smitandi en önnur eða valda alvarlegri veikindum.“
Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins, en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti ákvörðun þessa efnis á fundi ríkisstjórnarinnar í dag og er ákvörðunin í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærum.
Þórólfur vill ekki taka bólusetningarvottorð gild en Svandís vill skoða málin betur
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra var einnig lagt til að horfið yrði frá því að veita þeim undanþágu frá sóttvarnaráðstöfunum á landamærum sem framvísa gildu vottorði um að þeir hafi verið bólusettir gegn COVID-19.
Þórólfur segir í minnisblaði sínu að ekkert land í Evrópu hafi enn tekið þetta upog að í nýjum tilmælum frá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sé mælst til þess að bólusetningarvottorð séu ekki notuð til að undanskilja fólk frá aðgerðum á landamærum.
„Ástæðan er sú,“ segir í minnisblaði Þórólfs, „að ekki hefur verið sýnt fram á með áreiðanlegum
rannsóknum að bólusetning komi í veg fyrir dreifingu veirunnar en von er á niðurstöðum á
næstunni. Því væri óráðlegt á þessari stundu að losa bólusetta einstaklinga undan
sóttvarnaráðstöfunum á landamærum hvað sem síðar verður.“
„Heilbrigðisráðherra fellst ekki á þessa tillögu sóttvarnalæknis að svo stöddu og telur hana þarfnast nánari skoðunar. Reglugerð heilbrigðisráðherra sem kveður á um framvísun bólusetningarvottorða á landamærum og kröfur sem gerðar eru til þeirra svo gild teljist tók gildi 15. janúar síðastliðinn. Síðan þá hafa 57 einstaklingar framvísað bólusetningarvottorðum og af þeim vottorðum hefur 9 verið hafnað,“ segir um þetta í tilkynningu ráðuneytisins.