Útlendingastofnun hefur fengið alls 65 umsóknir um vegabréfsáritanir fyrir fólk utan EES sem vill koma til Íslands og vinna fyrir erlend fyrirtæki í fjarvinnu til allt að sex mánaða, en mögulegt hefur verið sækja um slík dvalarleyfi frá því í lok október, er þrír ráðherrar kynntu í sameiningu reglugerðarbreytingar sem miðuðu að þessu.
Samkvæmt svörum frá Útlendingastofnun eru þessar sextíu og fimm umsóknir bæði frá starfsfólki erlendra fyrirtækja sem hefur hug á að koma hingað og vinna tímabundið og mökum þeirra og börnum. Hingað til hafa tíu manns fengið útgefið þessa nýju tegund dvalarleyfa, en dvalarleyfin eru ekki gefin út fyrr en fólk kemur til landsins.
Fimmtíu umsóknir til viðbótar hafa verið samþykktar og Útlendingastofnun er þessa dagana með fimm umsóknir í vinnslu. 95 prósent þessara umsókna eru frá Bandaríkjunum, en þær fáu sem eftir standa eru frá Kanadamönnum og Bretum. Fyrst var sagt frá þessu á nýsköpunar- og tæknivefnum Northstack í gær.
Það var í lok október sem þessi nýja tegund af dvalarleyfum var kynnt til sögunnar, en þeir sem þau fá geta verið á Íslandi og starfað í allt að sex mánuði fyrir erlend fyrirtæki. Fjarvinnustarfsmennirnir geta tekið fjölskyldur sínar með sér án þess að þurfa að færa lögheimili sitt eða öðlast íslenska kennitölu.
Þessi fjarvinnustarfsmenn greiða því ekki skatta og eiga ekki rétt á neinni endurgjaldslausri þjónustu frá hinu opinbera hér á landi. Komi börn á skólaskyldualdri með í för þarf að sýna fram á að þau séu í fjarnámi að utan, fái heimakennslu eða fá samþykki um að koma þeim að í skólum hér á landi.
Stjórnvöld ákváðu að opna á þennan möguleika til þess að reyna að fá til landsins sérfræðinga í fjarvinnu sem gætu tengst nýsköpunarumhverfinu hér á landi, en hugmyndin kom upp í kjölfar þess að fyrsta bylgja COVID-19 faraldursins skall á að fjöldi fyrirtækja í Bandaríkjunum og víðar opnaði á að fólk gæti unnið sína vinnu að heima.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafði frumkvæði að verkefninu og vann ráðuneyti hennar að því í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skattinn og fleiri að útfæra þessa nýju heimild.
Til skoðunar að bjóða upp á lengra fjarvinnudvalarleyfi
Verið er að skoða hvort hægt sé að bjóða upp á enn lengri dvöl hér á landi, en til þess þarf frekari laga- og reglugerðarbreytingar en ráðist hefur verið í til þessa.
Samkvæmt svörum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans lagði Þórdís Kolbrún til við ríkisstjórnina á fundi hennar í gær að farið yrði í vinnu við að útfæra heimild fyrir erlenda sérfræðinga til að dvelja hér á landi og stunda vinnu sína fyrir erlend fyrirtæki í fjarvinnu í lengri tíma en 6 mánuði. Ráðherra lagði til að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið myndi halda utan um vinnuna og miðað er við að tillögur um nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar verði lagðar fram í ríkisstjórn eigi síðar en 7. maí.
Íslandsstofa hefur farið í greiningarvinnu á þessu máli að undanförnu. Í þeirri vinnu hefur komið í ljós að breiðari hópur hefur áhuga á að koma hingað til lands til að stunda vinnu sína fyrir erlendan aðila í fjarvinnu en getur það í dag.
Einnig kom fram í þessari vinnu Íslandsstofu að sníða þyrfti vankanta af og stytta umsóknarferið, gera mökum þessara aðila kleift að starfa hér á landi og huga að skattaumhverfinu.
„Ljóst er að fleiri ráðuneyti og aðilar þurfa að koma að verkefninu ef heimila á þessum aðilum dvöl hér á landi í lengri tíma en 6 mánuði, þ.e. dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti auk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Útlendingastofnunar, Skattsins, Vinnumálastofnunar og Íslandsstofu,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um þetta málefni.
Miðað að hátekjufólki í fjarvinnu
Athygli vakti þegar reglugerðarbreytingarnar voru kynntar að fólk þarf að vera töluvert tekjuhátt til þess að eiga kost á því að sækja um dvalarleyfi í fjarvinnu, en þeir útlendingar sem sækja um langtímavegabréfsáritun til að stunda hér fjarvinnu að vera með erlendar tekjur sem samsvara að minnsta kosti einni milljón króna á mánuði. Ef maki viðkomandi er með í för þá þarf fjarvinnustarfsmaður að sýna fram á tekjur upp á að minnsta kosti 1,3 milljónir króna á mánuði.
Fólk þarf að sýna fram á ráðningarsamband eða verkefnasamninga, starfi það sjálfstætt. Einnig þarf fólk að sýna fram á að það hafi ýmist íslenskar eða erlendar sjúkratryggingar allan þann tíma sem það ætlar að dvelja á Íslandi.
Þórdís Kolbrún sagði í tilkynningu um málið í október að til að byggja upp útflutningsgreinar byggðar á hugviti þyrfti að búa til umhverfi, suðupott fólks með hugmyndir og hæfni sem kynnist, lærir af hvert öðru, og býr til tækifæri framtíðarinnar.
„Við höfum upp á mikið að bjóða fyrir erlenda sérfræðinga og getum lært mikið af þeim. Einn helsti veikleiki íslenska nýsköpunarumhverfisins eru tengingar okkar við útlönd. Með því að hvetja fjarvinnufólk til að koma til Íslands erum við að minnka heiminn og búa til mikilvægar tengingar sem annars væri erfitt að koma á. Nú höfum við stigið þetta mikilvæga skref en ætlum að halda áfram vinnu við að stíga enn stærri skref svo við getum boðið upp á enn lengri dvöl íslensku samfélagi til hagsbóta,“ sagði ráðherra í tilkynningu.
Í svörum til Kjarnans öllu fyrr, eða í byrjun júní, sagði Þórdís Kolbrún að hún teldi vel koma til greina að verja fé til þess að kynna fyrir umheiminum að sérfræðingum stæði til boða að koma til Íslands og starfa í fjarvinnu.
„Eftir að búið er að kortleggja ferlið og sjá hvaða breytingar þarf að gera til að hafa það sem einfaldast og skilvirkast þurfum við að koma því til skila og búa til einhvers konar leiðarvísi þar sem viðkomandi er leiddur í gegnum ferlið. Ekki síst að huga að markaðssetningu á Íslandi sem fjarvinnulandi. Þar þyrfti að einblína á hvað er einstakt og spennandi við að koma hingað og hvað við höfum fram að færa. Að búa á Íslandi er lottóvinningur og fyrir sérfræðinga í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum getum við boðið upp á mikil lífsgæði. Þar mætti auðvitað nefna náttúruna en einnig líka til dæmis gott aðgengi að leik- og grunnskólum sem er oft meiri risa bónus fyrir barnafólk en við kannski áttum okkur á fyrir utan frábært heilbrigðiskerfi, virkt menningarlíf, frið og ró,“ sagði Þórdís Kolbrún.