Skapast hafa góðar aðstæður til að slaka enn meira á sóttvarnaaðgerðum innanlands og hefur sóttvarnalæknir sent heilbrigðisráðherra tillögur að tilsökunum. Búast má við nýrri reglugerð á næstu dögum.
Til að hægt sé að slaka á þarf faraldurinn í fyrsta lagi að vera í lágmarki innanlands og einnig þarf að vera búið að ná nokkuð góðum tökum á landamærunum. Báðar þessar forsendur eru nú til staðar að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann leggur til ýmsar tilslakanir á öllum þeim aðgerðum sem verið hafa í gangi en á upplýsingafundi dagsins vildi hann ekki fara nákvæmlega ofan í tillögurnar þar sem stjórnvöld eigi enn eftir að fjalla um þær. „Eins og áður mun örugglega einhverjum þykja of bratt farið á meðan öðrum allt of hægt,“ sagði Þórólfur. Hann var spurður hvort að til standi að lengja opnunartíma skemmtistaða og kráa og minnti hann þá á að þriðja bylgjan hafi hafist þar svo að mjög varlega verði að fara í slíkt.
Þó að nú sé hægt að feta sig í frekari tilslakanir, eins og Þórólfur orðaði það, þarf að gera það varlega og enn er brýnt að fólk sinni áfram einstaklingsbundnum sóttvörnum. „Við viljum ekki fá bakslag núna á þessari stundu.“
Bólusetningardagatalið sem stjórnvöld gáfu út fyrir helgi er svar við ákalli um einhvern fyrirsjáanleika, sagði sóttvarnalæknir. Það er þó óvissu háð. Þó að vonast sé til að bóluefnin verði afhent hraðar á næsta ársfjórðungi en hingað til hefur verið búist við er það alls ekki víst „og við þurfum að vera við öllu búin, líka því að dreifingin verði hægari en við vildum.“
Mögulega hægt að blása til stórra viðburða
Spurður hvort að hægt verði að halda stóra viðburði næsta sumar en allir slíkir voru blásnir af í fyrra, sagðist hann ekki telja það ólíklegt að því gefnu að megin þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir júnílok og að ekki komi fram ný afbrigði veirunnar sem bóluefnin virki ekki á.
Nú er hafið þekkingarsöfnun á landamærunum, með því að skylda farþega til að framvísa neikvæðu PCR-prófi og ef sú reynsla bendir til að óhætt sé með þeim hætti að afnema seinni skimun og jafnvel sóttkví verði það reynt 1. maí. „Ef það verður hægt og allt gengur vel þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að við höfum aðeins lausari tauminn næsta sumar. Hvernig það verður nákvæmlega veit ég ekki. Það sem skiptir öllu máli er hvernig við hegðum okkur sem einstaklingar. Ekki hvaða takmarkanir stjórnvöld setja. Þannig að þó að það sé verið að slaka á þá er mikilvægt að fólk haldi áfram að passa sig. Þetta þýðir ekki það að við getum lifað hinu villta góða lífi.“
Ekkert virkt smit hefur greinst utan sóttkvíar innanlands frá fyrsta febrúar. Þórólfur segir að auðvitað séu ákveðnar áhyggjur fyrir hendi um að þegar slakað verði á aðgerðum gerist eitthvað. Aðstæður séu hins vegar mun betri á landamærum nú en áður. „Staða okkar er allt öðruvísi núna,“ sagði hann um samanburð við síðasta sumar. „En vissulega er hættan alltaf fyrir hendi að faraldurinn blossi upp aftur. En við þurfum alltaf að lifa við þá hættu sama hvað við gerum.“
58 ekki með vottorð á landamærunum
Síðustu vikur hafa um 170-180 farþegar komið landsins daglega. Á föstudag tóku gildi nýjar reglur á landamærunum og er öllum farþegum nú skylt að framvísa neikvæðu PCR-prófi, sem ekki má vera eldra en 72 stunda gamalt, við komuna til landsins. Þeir sem hafa gilt vottorð um bólusetningu eða að hafa náð bata af COVID-19 eru undanþegnir því.
Um helgina komu 706 farþegar til landsins og 503 framvísuðu neikvæðu PCR-prófi. 51 framvísaði vottorði um fyrri sýkingu og 54 vottorði um bólusetningu. 58 voru ekki með vottorð. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að í vikunni yrði farið að sekta þá sem ekki framvísa gildu vottorði. Sektarupphæð hefur enn ekki verið ákveðin.