„Þetta eru umtalsverðar tilslakanir núna,“ sagði Svandís Svavarsdóttir er hún steig út af ríkisstjórnarfundi í dag og kynnti fyrir fjölmiðlum aðalatriðin í tilslökunum á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á morgun.
Reglugerðin hefur verið birt og hana má lesa í heild hér.
50 manns mega frá og með morgundeginum koma saman í stað 20 áður og allt að 200 manns mega sækja sviðslistaviðburði, íþróttaviðburði og aðra sambærilega viðburði ef hægt er að tryggja að fólk sitji í sætum með einn metra á milli ótengdra aðila.
Upplýsingar eiga líka að liggja fyrir um hvern og einn áhorfanda, til að auðvelda megi smitrakningu ef á þarf að halda.
„Þetta er breyting fyrir íþróttaaðdáendur,“ sagði Svandís, en áhorfendur hafa ekki mátt vera á íþróttakappleikjum undanfarna mánuði. Þessar nýju reglur gilda næstu þrjár vikur.
Svandís sagði einnig að opnunartími veitingastaða og kráa yrði lengdur um eina klukkustund frá því sem nú er. Ekki verða gerðar breytingar varðandi grímuskyldu og hin almenna tveggja metra regla er ennþá í gildi.
Hér eru helstu atriði sem breytast frá og með morgundeginum, 24. febrúar:
Söfn og verslanir: Viðskiptavinir mega vera allt að 200 í stað 150 áður, að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar um fermetrafjölda. Áfram gilda 2 metra nálægðarmörk og grímuskylda.
Viðburðir þar sem gestir sitja: Allt að 200 manns mega vera viðstaddir athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga, sviðslistar- menningar- og íþróttaviðburði, ráðstefnur, fyrirlestra og sambærilega viðburði að uppfylltum öllum eftirtöldum skilyrðum.
- Heimiluð nándarmörk milli ótengdra aðila eru nú 1 metri, að uppfylltum skilyrðum.
- Gestir mega ekki sitja andspænis hver öðrum nema meira en tveir metrar séu á milli þeirra.
- Þátttaka allra gesta skal skráð þar sem fram kemur nafn, kennitala og símanúmer.
- Allir skulu nota andlitsgrímu og tryggt að fjarlægð milli ótengdra aðila sé meiri en 1 metri.
- Heimilt er að hafa hlé á sýningum en áfengisveitingar og áfengissala á viðburðum er óheimil.
- Koma skal í veg fyrir hópamyndanir, jafnt fyrir og eftir viðburð og í hléi.
- Ef ekki er hægt að uppfylla eitthvert framantalinna skilyrða gildir reglan um 50 manna hámarksfjölda á viðburðinum.
Áhorfendur á íþróttaviðburðum: Heimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum. Áhorfendur mega vera allt að 200 manns að því gefnu að hægt sé að uppfylla öll skilyrði hér að framan um viðburði þar sem gestir sitja. Ef áhorfendur eru standandi gildir regla um 50 manna hámarksfjölda.
Sund- og baðstaðir: Gestir mega vera 75 prósent af leyfilegum hámarksfjölda.
Heilsu- og líkamsræktarstöðvar: Gestir mega vera 75 prósent af leyfilegum hámarksfjölda. Í hverju rými mega nú að hámarki vera 50 manns.
Skíðasvæði: Heimilt er að taka á móti 75% af hámarksfjölda af móttökugetu hvers svæðis.
Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar: Leyfilegur hámarksfjöldi í rými verður 50 manns. Heimilt er að taka á móti nýjum viðskiptavinum til kl. 22.00 en þeir skulu allir hafa yfirgefið staðinn fyrir kl. 23.00.