Miðað við þær dreifingaáætlanir bóluefnis sem framleiðendur þeirra hafa gefið út megum við eiga von á því að um 45 þúsund manns hafi fengið bólusetningu í lok mars. Enn liggja áætlanir fyrir framhaldið ekki fyrir en bjartsýnustu spár, sem m.a. birtast í nýju bólusetningadagatali stjórnvalda, gera ráð fyrir að allir fullorðnir einstaklingar hér á landi verði búnir að fá bólusetningu fyrir lok júní.
Í morgun, þriðjudaginn 23. febrúar, höfðu 10.554 einstaklingar fengið báða skammta bóluefnis og eru því fullbólusettir. 6.825 til viðbótar hafa fengið fyrri skammtinn. Þetta þýðir að um 3 prósent af íbúum Íslands eru fullbólusettir og um 3,8 prósent fullorðinna. Gert er ráð fyrir að bólusetja alla, sem það vilja, yfir sextán ára aldri.
Þau þrjú bóluefni sem fengið hafa markaðsleyfi hér á landi þarf öll að gefa í tveimur skömmtum. Þetta eru bóluefni Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Fyrir liggur staðfest áætlun um afhendingu þessara lyfja til loka mars. Þá liggur einnig fyrir að þessir framleiðendur áforma að hafa fyrir lok júní afhent bóluefni fyrir samtals 190.000 einstaklinga.
Á grundvelli Evrópusamstarfs hefur Ísland til viðbótar gert samninga um kaup á bóluefnum Curavac og Janssen. Þá er Evrópusambandið að ljúka samningi um bóluefni Novavax sem Ísland fær hlutdeild í. Öll þessi lyf eru komin í áfangamat hjá Evrópsku lyfjastofnuninni og þess vænst að þau fái markaðsleyfi innan tíðar. Í samningum um þessi bóluefni kemur fram hve mikið framleiðendur þeirra áætla að geta afhent á öðrum ársfjórðungi, þ.e. fyrir lok júní. Bólusetningardagatalið tekur mið af þessum upplýsingum.
Á upplýsingafundi almannavarna í gær fór Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir yfir stöðu bólusetninga næstu vikur. Enn er verið að bólusetja 90 ára og eldri og er nú meira en helmingur þess aldurshóps fullbólusettur.
Fjórðungur fólks á níræðisaldri (80-89 ára) hefur þegar verið fullbólusettur. Fyrir marslok gera áætlanir í samræmi við dreifingaráætlanir bóluefnafyrirtækjannaráð að allir 80 ára og eldri verði búnir að fá að bólusetningu og tæplega helmingur fólks yfir sjötugu búinn að fá að fyrri skammt bóluefnisins.
Bólusetningardagatalið er svar við ákalli um einhvern fyrirsjáanleika, sagði sóttvarnalæknir á upplýsingafundinum í gær. Það er þó óvissu háð. Þó að vonast sé til að bóluefnin verði afhent hraðar á næsta ársfjórðungi en hingað til hefur verið búist við er það alls ekki víst „og við þurfum að vera við öllu búin, líka því að dreifingin verði hægari en við vildum.“