Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) segir í tilkynningu á vef sínum að dauðsföllum vegna COVID-19 á alþjóðavísu hafi fækkað um 20 prósent í síðustu viku miðað við vikuna á undan. Þá hefur nýjum tilfellum af sjúkdómnum fækkað sex vikur í röð og um 11 prósent milli tveggja síðustu vikna.
Í síðustu viku greindust 2,4 milljónir nýrra tilfella af COVID-19 í heiminum samkvæmt opinberum gögnum sem WHO vísar til. Dauðsföll vegna sjúkdómsins voru 66 þúsund á alþjóðavísu.
Frá upphafi faraldursins hafa 110,7 milljón tilfelli greinst og 2,4 milljónir manna látist vegna COVID-19.
Tvennt skýrir þetta fyrst og fremst. Hin mikla bylgja faraldursins sem kom í kjölfar jóla og áramóta er í rénun vegna hertra takmarkana víðsvegar um heiminn. Þá eru bólusetningar hafnar, sérstaklega í Evrópu og Bandaríkjunum, sem talið er að hafi þegar haft áhrif á útbreiðslu faraldursins.
Enn eru flest smitin að greinast í Bandaríkjunum en þó fækkaði þeim um heil 29 prósent á milli vikna. Á Indlandi hélt nýjum tilfellum hins vegar áfram að fjölga á sama tímabili eða um 10 prósent.
Smitum í Evrópu fækkaði um sjö prósent milli vikna og dauðsföllum um 19 prósent.
WHO varar í vikulegu fréttabréfi sínu sérstaklega við nýjum afbrigðum veirunnar, afbrigðum sem smitast meira en önnur og hafa jafnvel þá eiginleika að komast framhjá ónæmisvörnum líkamans og vísbendingar eru um að fólk sem sýkst hefur af öðrum og eldri afbrigðum veirunnar geti sýkst aftur.
Yfir 500 þúsund afbrigði hafa greinst af veirunni í heiminum. Þau afbrigði sem vekja áhyggjur hafa stökkbreytingar í gaddaprótíninu sem veldur því að veiran kemst auðveldar inn í frumur líkamans.