Talsvert er um það að fólk afþakki bólusetningu með bóluefni frá fyrirtækinu AstraZeneca á þeim grunni að það sé ekki eins virkt og önnur bóluefni á markaði. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að „til að gæta allrar sanngirni“ þá virðist virkni bóluefnis AstraZeneca minni en af öðrum en að munurinn væri mjög lítill „og ekki þannig að það skipti neinu máli varðandi verndunina sem við erum að sækjast eftir.“
Hvað aukaverkanir af bóluefninu varðar virðast þær meiri eftir fyrri skammt á AstraZeneca en af hinum bóluefnunum tveimur sem hafa fengið markaðsleyfi en að því sé öfugt farið hvað seinni skammtinn varðar. „Ég tel að það sé ekki stór munum á bóluefnunum og tel enga ástæðu fyrir fólk að neita einu bóluefni umfram önnur.“
Þórólfur segir að ekki sé mögulegt að láta fólk ákveða hvaða bóluefni það fær. „Í framkvæmdinni er það nánast vonlaust.“ Spurður hvort að þeir sem neiti að fá bóluefni AstraZeneca verði bólusettir með öðru bóluefni svarar hann að ekki sé búið að taka ákvörðun um það. „Ég býst ekki við að þeir verði ekki bólusettir en þeir munu ekki fá þann forgang sem þeir höfðu.“
Enginn greindist með veiruna innanlands í gær og á síðastliðinni viku hafa tveir greinst innanlands og báðir voru þeir í sóttkví. Síðasta smit utan sóttkvíar greindist 1. febrúar.
Framvísaði neikvæðu prófi en reyndist smitaður
Síðastliðna viku hafa sjö greinst á landamærunum, þar af þrír með virkt smit. Frá 19. febrúar, þegar ferðamönnum var gert skylt að framvísa neikvæðu COVID-prófi á landamærunum, hafa tveir greinst með virkt smit. Annar þeirra framvísaði 48 stunda gömlu neikvæði vottorði. Hann greindist hins vegar jákvæður í fyrri skimun. Hinn einstaklingurinn sem greindist var ekki með vottorð. Þessu segir Þórólfur að fylgjast þurfi sérstaklega vel með á næstunni til að afla vitneskju um hvernig haga beri aðgerðum á landamærunum frá 1. maí eftir að núverandi reglugerð fellur úr gildi.
Langflestir farþegar sem eru að koma til landsins, framvísa vottorðum um neikvæð COVID-próf líkt og reglur gera ráð fyrir eða um 80 prósent allra farþega. Frá 19. febrúar hafa um 3 prósent framvísað vottorði um fyrri sýkingu af COVID-19 og sambærilegur fjöldi hefur framvísað bólusetningarvottorði. Þessir tveir hópar eru undanþegnir því að framvísa neikvæðu COVID-prófi.
Farþegum fer fjölgandi
Um 200 farþegar eru þessa dagana að koma til landsins á hverjum sólarhring sem er nokkuð meira en síðustu vikur. Að þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi virðist því ekki letja fólk til ferðalaga til Íslands.
„Við höfum verið að skipta þessum faraldri og baráttunni upp í kafla og ég held að við séum að fara inn í nýjan kafla í baráttunni við COVID-19,“ sagði Þórólfur. Ný reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands tóku gildi í gær en sóttvarnalæknir bendir á að um 1-2 vikur þurfi að líða áður en hægt sé að fullyrða hvaða áhrif það hafi á faraldurinn.
„Ég held að staða okkar sé mjög góð núna,“ sagði Þórólfur. „Við megum gleðjast yfir því að við séum komin á þennan stað. Við vitum hvað við þurfum að gera til að viðhalda árangrinum sem við höfum náð.“