Sú málsmeðferð héraðsdóms, í máli þar sem héraðssaksóknari fór fram á að fá afhent gögn varðandi bókhald og reikningsskil allra félaga Samherja á árunum 2011 til 2020, að boða ekki sóknaraðila til þinghalds var í andstöðu við fyrirmæli laga um að sá sem geri kröfu um rannsóknaraðgerð skuli boðaður til þinghaldsins.
Því lágu ekki fyrir héraðsdómi nauðsynleg gögn til að tekin yrði afstaða til afhendingu gagnanna. Héraðsdómarinn í málinu hefði átt að krefja héraðssaksóknara um þessi gögn áður en hann tók kröfuna til úrskurðar, í því skyni að ganga úr skugga um hvort lagaskilyrði væru uppfyllt. „Samkvæmt framanrituðu var meðferð málsins í héraði svo áfátt að óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju.“
Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar sem birtur er á vef mbl.is í dag í kærumáli sem fyrrverandi endurskoðendur Samherja, KPMG, höfðuðu gegn héraðssaksóknara vegna afhendingu gagnanna.
Í greinargerð sóknaraðila segir að „sækjandi málsins hafi sent kröfu sína til vakthafandi dómara sem viðhengi með tölvubréfi 3. desember 2020. Í niðurlagi kröfunnar hafi verið tekið fram að atvik málsins samkvæmt fyrirliggjandi gögnum yrðu nánar reifuð fyrir dóminum við fyrirtöku ef þess yrði óskað. Eftir sendingu kröfunnar hafi dómari haft samband við sækjandann í síma og spurst nánar fyrir um sakamálið og atriði varðandi kröfuna. Eins og þingbók málsins beri með sér hafi síðan farið svo að dómari tók kröfuna fyrir og kvað upp úrskurð án þess að sækjandinn væri kvaddur til fyrirtöku. Í greinargerð lætur sóknaraðili þess getið að hefði hann verið kvaddur til þinghalds hefðu rannsóknargögn verið látin liggja frammi með venjulegum hætti.”
Sögðu vinnubrögðin vera „ótrúleg“
KPMG var endurskoðandi Samherjasamstæðunnar allrar árum saman. Í fyrrahaust var greint frá því að Samherji hefði ákveðið að skipta um endurskoðunarfyrirtæki og fara með viðskipti sín til BDO ehf., lítt þekkts endurskoðunarfyrirtækis. Stundin fjallaði um þessi vistaskipti í lok október og byrjun nóvember í fyrra.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð sinn um þetta í byrjun desember. Dómurinn féllst á kröfur héraðssaksóknara um að KPMG yrði skyldað til að láta gögnin af hendi og núverandi og fyrrverandi starfsmönnum félagsins yrði sömuleiðis gert skylt að veita embættinu þær upplýsingar sem þeir búa yfir.
Stjórnendur Samherja voru ekki ánægðir með þessa niðurstöðu og sögðu vinnubrögð saksóknara og héraðsdómara í málinu vera „ótrúleg“.
Fyrirtækið sagði í yfirlýsingu að með úrskurðinum hafi ekki einungis lögbundinni þagnarskyldu verið aflétt af endurskoðendum KPMG, heldur einnig rofinn trúnaður lögmanna, enda hafi gögn sem embætti héraðssaksóknara fékk með úrskurðinum verið „í vörslum bæði endurskoðenda og lögmanna hjá KPMG og dótturfélögum.“
Sögðust vera að vernda rannsóknarhagsmuni
Embætti héraðssaksóknara fór með kröfu sína til Héraðsdóms Reykjavíkur og var hún sett fram án þess að KPMG væri látið vita fyrirfram, en það var að sögn embættisins til þess að vernda rannsóknarhagsmuni.
Samherji gagnrýndi að dómarinn hafi talið sig bæran til þess að taka ákvörðun um þetta án sönnunargagna. Og reyndi að fá úrskurðinn ógildan í Landsrétti, en kærunni var vísað frá vegna aðildarskorts.
Það sem Samherji var að kvarta yfir er að dómarinn í héraðsdómi, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, hafi ekki skoðað sérstaklega þau rannsóknargögn sem lágu til grundvallar kröfu um gögn og upplýsingar frá KPMG og að ranglega hafi verið greint frá því í úrskurði og þingbók að slík gögn hefðu legið frammi við uppkvaðningu úrskurðarins.
Í kjölfarið kærði KPMG, dótturfélag þess og endurskoðandi Samherja sem starfar hjá KPMG úrskurðinn til Landsréttar sem féllst á aðfinnslur þeirra í dag, ógilti úrskurðinn og vísaði málinu aftur heim í hérað.