Bóluefnis Johnson & Johnson, sem nú fengið hefur markaðsleyfi í Bandaríkjunum, er beðið með mikilli óþreyju, ekki síst í ljósi þess að vísbendingar um að faraldurinn væri loks í rénun hafa dvínað eftir að greindum smitum og dauðsföllum fjölgaði enn á ný í síðustu viku. „Vinsamlega hlustið á mig: Þegar við erum með svo mörg tilfelli og ný afbrigði að breiðast út þá gætum við algjörlega glatað öllum þeim árangri sem við lögðum svo mikið á okkur að ná,“ sagði Rochelle Walensky, framkvæmdastjóri bandarísku smitsjúkdómastofnunarinnar (CDC), í gær. Smitum hafði fækkað nokkrar vikur í röð en nú fer þeim aftur fjölgandi og voru um 2 prósent fleiri í síðustu viku en í vikunni á undan. Það sama má segja um dauðsföll af völdum COVID-19. Þeim hefur aftur fjölgað og eru í kringum 2.000 á dag.
Mörg ríki Bandaríkjanna hafa slakað á sóttvarnaaðgerðum þrátt fyrir að bólusetningar séu ekki nógu vel á veg komnar til að vísir að hjarðónæmi sé í augsýn. Af þessu hefur Walensky miklar áhyggjur og hvetur hún almenning til að nota grímur og beita öðrum persónubundnum sóttvörnum. „Það er svo mikilvægt að við höldum vöku okkar [...] á meðan við erum að ná útbreiddri bólusetningu.“
Í þessu ástandi er ekki að undra að fregnum af því að markaðsleyfi bóluefnis Johnson & Johnson (Janssen) hafi verið fagnað gríðarlega. Bóluefnið þarf aðeins að gefa í einum skammti og því er hægt að bólusetja mun fleiri á skemmri tíma.
Fyrirtækið stefnir að því að hefja dreifingu á „milljónum skammta“ þegar í þessari viku. Dreifingaráætlun gerir svo ráð fyrir afhendingu 100 milljón skammta í Bandaríkjunum fyrir júnílok.
Tvö bóluefni hafa þegar fengið neyðarleyfi bandarísku Lyfja- og matvælastofnunarinnar (FDA), frá fyrirtækjunum Pfizer og Moderna. Bæði hafa þau þegar fengið skilyrt markaðsleyfi í Evrópu og þar með á Íslandi og sömu sögu má segja um þriðja bóluefnið, frá fyrirtækinu AstraZeneca.
Á vef Lyfjastofnunar Evrópu kemur fram að reiknað sé með að skoðun hennar á bóluefni Johnson & Johnson verði lokið um miðjan mars. Forstjóri Lyfjastofnunar Íslands sagði í samtali við RÚV í gærkvöldi að óvíst væri hvenær bóluefnið færi að berast til landsins í kjölfarið en það gæti þó mögulega gerst í apríl. Það mun skýrast um leið og markaðsleyfið verður klárt.
Fyrir utan að aðeins þarf að gefa einn skammt af bóluefni Johnson & Johnson hefur það fleiri eftirsóknarverða eiginleika. Það þarf t.d. ekki að geyma í miklu frosti. Það má geyma í venjulegum kæliskáp í þrjá mánuði án þess að það spillist.
Það veitir góða vörn gegn alvarlegum veikindum og dauðsföllum af völdum COVID-19, rétt eins og þau bóluefni sem þegar eru komin á markað á Íslandi, sem og dregur það verulega úr hættu á minni veikindum. Að auki benda rannsóknir til þess að það veiti vörn gegn hinu bráðsmitandi suðurafríska afbrigði veirunnar.