„Okkar plön miða við að gos sé að hefjast á næstunni,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, í samtali við RÚV kl. 15.30. „Á næstunni“ þýðir á næstu klukkustundum að sögn Víðis.
Hann segir að svona atburðir, miklir skjálftar og gosórói, geti „auðvitað stoppað“ en þar sem merki um gos hafi verið að eiga sér stað í langan tíma sé líklegt að það fari að gjósa.
Óróapúls mældist kl. 14:20 og sást á flestum jarðskjálftamælum og er staðsettur suður af Keili við Litla Hrút. Slík merki mælast í aðdraganda eldgosa en ekki hefur verið staðfest að eldgos sé hafið. Unnið er að nánari greiningu.
„Það eru engar hamfarir að fara í gang,“ sagði Víðir og brýndi fyrir fólki að halda ró sinni og „halda lífi sínu áfram. Þetta er ekkert að fara að breytast næstu klukkutímana.“
Þyrla Landhelgisgæslunnar með vísindamenn innanborðs er farin í loftið. Þannig verður hægt að fylgjast með úr lofti til að staðfesta þegar og ef gos byrjar að sögn Víðis.
„Vinsamlegast gefið okkur vinnufrið á þessu svæði,“ sagði hann og beinir því til almennings að fara ekki á svæðið að skoða. Einnig biður hann fólk sem er að keyra Reykjanesbrautina um að halda ferð sinni óhikað áfram og alls ekki stoppa út í kanti. Það eru „engar hamfarir yfirvofandi,“ ítrekaði hann. Ekki standi til að loka Reykjanesbrautinni eins og staðan er núna þó að viðbragðsáætlanir geri ráð fyrir að það verði gert ef þörf krefur.
Búið er að færa litakóða fyrir svæðið upp á appelsínugult. Ef gos hefst verður flugumferð tímabundið stöðvuð á meðan staðan skýrist. „Það er enginn í hættu,“ sagði hann spurður um skilaboð til íbúanna á svæðinu.
„Gosið er ekki hafið og ef gos byrjar á þessum stað þá er enginn í hættu.“