1.
Enginn Íslendingur yngri en sextíu ára hefur látist vegna COVID-19 í þeim þremur bylgjum faraldursins sem gengið hafa yfir. 29 hafa látist úr sjúkdómnum á Íslandi, þar af einn erlendur ferðamaður á fertugsaldri. Samanlagt hafa 833 einstaklingar 60 ára eða eldri greinst með veiruna innanlands.
Rúmt ár er liðið frá því að fyrsta innanlandssmitið greindist á Íslandi.
2.
Í gær var aðeins einn í einangrun vegna smits sem greinst hafði innanlands. Svo fáir hafa ekki verið í einangrun vegna COVID-19 síðan í lok júlí. Þann 5. apríl, á hátindi fyrstu bylgjunnar, voru 1.096 samtímis í einangrun með sjúkdóminn. Fyrstu sex dagana í apríl voru yfir þúsund í einangrun.
3.
Í þeirri þriðju sem gekk yfir í haust og upphafi vetrar voru mest 1.186 í einangrun á sama tíma. Það var þann 16. október. Í heila ellefu daga, 12.-22. október, voru yfir þúsund í einangrun.
4.
Frá áramótum hafa 104 greinst með kórónuveiruna innanlands. Aðeins ellefu greindust í febrúar. Ekkert smit hefur nú greinst í fjóra daga.
Af þeim 368 dögum sem liðnir eru frá fyrsta smiti hér á landi hafa 104 dagar reynst smitlausir. Lengsta „smitleysið“ varði í tuttugu daga í júlí. Í sex daga á því tímabili var enginn í einangrun vegna innanlandssmits.
5.
Rúmlega 1.800 manns fengu COVID-19 í fyrstu bylgjunni og tíu manns létust. Sú þriðja var enn skæðari og í henni létust nítján. Rekja má þau dauðsföll til hópsýkingar sem upp kom á Landakoti. 53 einstaklingar hafa þurft á innlögn á gjörgæsludeild að halda vegna alvarleika veikinda sinna.
6.
Frá upphafi faraldursins var markmið sóttvarnayfirvalda að verja viðkvæma hópa fyrir sýkingum. Árangur þeirra aðgerða má m.a. sjá í fjölda smita eftir aldri en hættan á alvarlegum veikindum eykst eftir því sem hann hækkar. Sé horft til fjölda smita á hverja þúsund íbúa í tilteknum aldurshópum er ljóst að hlutfallslega flest smit greindust hjá fólki á aldrinum 18-29 ára (18,5/1.000). Hlutfallið er mun lægra hjá fólki á milli 70 og 79 ára og aðeins um 7 af hverjum þúsund íbúum á þeim aldri sýktust.
Hlutfallið hækkar hins vegar í elsta aldurshópnum, níutíu ára og eldri, sem aðallega skýrist af hópsýkingunni á Landakoti. 34 einstaklingar á þessum aldri sýktust af kórónuveirunni og sex þeirra létust eða tæp átján prósent.
7.
713 hafa greinst með virkt smit í sýnatöku á landamærunum frá því að fyrirkomulagið var tekið upp um miðjan júní. Mikill meirihluti eða rúmlega 75 prósent, hafa greinst í fyrri sýnatöku. Af þeim sem greinst hafa jákvæðir á landamærunum hafa 467 reynst vera með mótefni og því ekki smitandi.
8.
Í febrúar var byrjað að skylda ferðamenn að framvísa neikvæðu COVID-prófi við komuna til landsins. Niðurstaðan má ekki vera meira en 72 klukkustunda gömul. Sóttvarnalæknir hefur sagt að nú sé hafið reynslutímabil til að kanna hvernig slík neikvæð próf og sýnatökur á landamærunum spila saman. Reynist fyrirkomulagi vel er mögulegt að sýnatökum hjá ferðamönnum verði fækkað í eina og að sóttkví sem er nú skylda á milli skimana verði úr sögunni.
Núverandi fyrirkomulag á landamærunum gildir til 1. maí.
9.
Mun strangari reglur eru nú á landamærunum en voru í kjölfar fyrstu bylgjunnar í júní í fyrra þegar aðeins ein sýnataka var framkvæmd og ýmsar undanþágur leyfðar. Þó að hættan á því að smit „leki yfir landamærin“ sé alltaf fyrir hendi hafa yfirvöld á síðustu mánuðum aflað sér mikillar þekkingar og beitt reynslunni til að lágmarka hættuna á að slíkt gerist.
10.
Meira en helmingi fleiri landsmenn eru nú fullbólusettir á Íslandi, eða um 12.700 manns, en sýkst hafa af kórónuveirunni. Um 11.000 til viðbótar hafa fengið fyrri skammt bóluefnisins. Um 74 prósent níutíu ára og eldri eru fullbólusettir og tæp 30 prósent 80-89 ára. Langflestir hafa fengið bóluefni frá Pfizer-BioNTech eða rúmlega 15.500 landsmenn.
Um 8,2 prósent fólks sextán ára og eldra hefur fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnisins. Stefnt er að því að allir eldri en 80 ára og til viðbótar um helmingur fólks á áttræðisaldri verði ýmist orðið fullbólusett fyrir lok mars eða búið að fá fyrri skammtinn. Stjórnvöld binda vonir til þess að mikill meirihluti landsmanna verði bólusettur fyrir lok júní. Engar dreifingaráætlanir hafa hins vegar enn borist frá lyfjafyrirtækjunum fyrir annan ársfjórðung.