„Við lifum núna á svolítið skrítnum tímum,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Við erum að berjast við náttúruvá á ýmsum sviðum en við vitum hvað þarf að gera til að varast alvarlegar afleiðingar. Núna ríður á að við stöndum okkur og beitum þeim aðferðum sem við vitum að duga.“
Alma Möller landlæknir sagði að staðan á faraldrinum innanlands væri góð, sérstaklega þegar litið er til nágrannalandanna þar sem staðan er víða slæm og „menn óttast nýja bylgju“. Sá ótti skýrist m.a. af nýjum afbrigðum veirunnar sem eru meira smitandi. „Þess vegna mikilvægt að gleyma okkur ekki í velgengninni og höldum áfram aðgerðum á landamærum og höfum líka þann varnagla áfram að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum. Ef hún skyldi sleppa inn eða ef húnn lægi í leyni hérna, sem er ekki útilokað.“
Bæði hún og Þórólfur ítrekuðu að fólk gleymdi sér ekki þó að mikið gangi á á Reykjanesi.
„Kannski svolítið erfitt að koma inn núna með upplýsingafund um covid vegna óróans og yfirvofandi eldgoss,“ sagði Þórólfur. „Það er nauðsynlegt að við höldum vöku okkar og missum ekki einbeitingu okkar á verkefninu um covid, svo covid fari ekki að læðast aftan að okkur með alvarlegum afleiðingum.“
Enginn greindist með veiruna innanlands í gær. Frá 19. febrúar, þegar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi á landamærum og ferðamenn krafðir um að framvísa neikvæðu COVID-prófi við komuna til landsins, hafa tveir greinst innanlands og báðir voru þeir í sóttkví.
„Það gengur áfram vel að halda faraldrinum niðri innanlands og ég tel að það séu góðar líkur á því að veiran hafi verið upprætt hér innanlands, þó að við getum ekki verið viss,“ sagði Þórólfur. „Við erum áfram að greina veiruna á landamærum og við þurfum að passa mjög vel að hún komist ekki inn í landið.“
Enginn greindist á landamærunum í gær en frá 19. febrúar hafa 19 greinst með veiruna þar en aðeins ellefu reyndust með virk smit. Um 1.600 neikvæðum covid-prófum hefur verið framvísað við landamærin og hafa átta af þeim einstaklingum greinst með veiruna í fyrri eða seinni skimun. „Þetta segir okkur að neikvætt pcr-próf er ekki fullkomið til að halda veirunni frá þó að það sé árangursríkt að krefjast þess að einhverju leyti. Þannig að við þurfum að skoða þetta mjög vel.“
Tugir greinst með breska afbrigðið
Nítíu einstaklingar hafa greinst með breska afbrigði veirunnar hér á landi, þar af tuttugu innanlands en það er allt fólk sem tengist þeim sem greinst hafa á landamærunum nánum böndum. Þá greindist einn með suðurafríska afbrigðið á landamærunum fyrir fjórum dögum. Það er í fyrsta sinn sem það afbrigði greinist hér á landi.
Spurður hvort að til greina komi, í ljósi góðs árangur innanlands, að aflétta frekar aðgerðum innanlands, sagði Þórólfur að mjög varlega yrði að fara í slíkt. „Það þarf bara eitt afbrigði af veirunni, einn einstakling, til að setja af stað faraldur. Á þeim grunni tel ég að fara þurfi mjög varlega í afléttingar.“
Fólk gæti gleymt sér
Sagði hann hættu á því að vegna jarðhræringanna á Reykjanesi, sem gætu endað með eldgosi, gæti fólk misst einbeitinguna á sóttvörnum vegna COVID. Vegna þess og nýrra afbrigða þurfum við nú að gæta okkar „extra vel“.
Ef eldgos verður þá þurfum við að gæta okkar að fá ekki „smit ofan í það líka“.
Í þessari viku verða um 7.000 manns bólusettir og svipaður fjöldi í þeirri næstu en þá er ráðgert að byrja að bólusetja fólk milli 70 og 80 ára.
Pfizer hefur birt dreifingaráætlun fyrir apríl og samkvæmt henni koma hingað um 34 þúsund skammtar af bóluefni fyrirtækisins í þeim mánuði sem duga til að bólusetja um 17 þúsund manns.
Þórólfur áréttaði að fólk sem er bólusett sé ekki undanþegið sóttvarnaráðstöfunum þar sem ekki er enn vitað hvort að bólusettir geti borið veiruna og þar með smitað aðra. Rannsóknir eru í fullum gangi á þessum þætti. „Á meðan svo er þurfa bólusettir að undirgangast sömu ráðstafanir og leiðbeiningar og aðrir.“
Getum tekið Pollyönnu á þetta
Hvað varðar mögulega frekari náttúruhamfarir á Íslandi, ef til eldgoss kemur, minnti Þórólfur á að við Íslendingar værum ýmsu vanir og í okkur væri ótrúleg seigla. Fólk tæki náttúruöflunum af miklu æðruleysi, „hvort sem það eru skrítnar og óútreiknanlegar veirur eða jarðhræringar.“
Alma sagði íslenska þjóð vel upplýsta. Hér störfuðu margir góðir vísindamenn og sömuleiðis viðbragðsaðilar. „Við þurfum áfram að sýna samstöðu og yfirvegun í því sem nú gengur yfir.“
Þórólfur sagði að við gætum tekið „Pollyönnu“ á ástandið. Það sé þó „alla vega ljós í myrkrinu að staðan á faraldrinum er góð á meðan við erum að takast á við þessar jarðhræringar. Við getum glaðst yfir sumum hlutum.“