Uppfærsla á vef Veðurstofu Íslands hefur staðið yfir í vikunni líkt og glöggir notendur vefsins hafa eflaust tekið eftir. Á gulum borða efst á síðunni, innan um viðvaranir vegna viðvarandi jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga, má finna athugasemd þar sem sagt er frá uppfærslunni. Þar kemur fram að ráðist sé í þessa uppfærslu til að bæta rekstraröryggi og að samband við vefinn geti rofnað tímabundið vegna uppfærslunnar.
Á samfélagsmiðlum hafa notendur vefsins vakið athygli á því að hann höndli vart álagið sem dynur á honum í kjölfar stærstu jarðskjálftanna. En þrátt fyrir að vefurinn eigi á köflum í vandræðum með að taka á móti miklum fjölda skekins áhugafólks um jarðhræringar þá hefur vefurinn aðeins einu sinni „hrunið“ síðan jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst á miðvikudag í síðustu viku. Kjarninn heyrði í Gunnari Bachmann Hreinssyni, framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs Veðurstofunnar, sem staðfesti þetta og upplýsti um stöðu mála.
Þreföldun á búnaði
„Í rauninni hefur hann átt erfitt á köflum með að svara öllum einn, tveir og þrír,“ segir Gunnar um vefinn og að í öllum hamaganginum hafi það einu sinni gerst að virkni vélbúnaðar detti niður og hann endurræst sig, með öðrum orðum hrunið. Uppfærsla síðustu daga er til þess gerð að vefurinn sé betur í stakk búinn til að taka á móti miklum fjölda notenda og segir Gunnar að verið sé að klára þreföldun á þeim búnaði sem tekur hvað mest af álaginu á sig við heimsóknir þeirra. Því geti vefurinn tekið á móti mun fleirum nú en áður án teljandi vandræða.
Það er töluverð einföldun að horfa eingöngu til fjölda gesta á vefnum þegar kemur að álagi, líkt og Gunnar bendir á: „Þetta er þannig vefur að hann hefur með mikla bakinnviði að gera. Það eru hundruð mæla úti um allt land og stöðug vinnsla með kort, innlend og erlend og allavega,“ segir hann.
Ljóst er að álagið sem skapast af heimsóknum á vefinn er þó töluvert. Í fyrstu vikunni eftir að skjálftahrinan hófst nam fjöldi uppflettinga á vefnum yfir fimm milljónum, frá um 290 þúsund notendum. Fléttingum hefur fjölgað töluvert, því síðan þessar eiga við fyrstu vikuna eftir að skjálftar hófust svo heimsóknir á vefinn eftir að óróapúls mældist eru ekki inni í þeim. Óróapúls er hefðbundinn undanfari eldgoss og eftir að fréttir voru fluttar af mælingunum voru heimsóknir á vef Veðurstofunnar. Að sögn Gunnars er hægt að tala um tvo toppa í umferð um vefinn, sá fyrri í kjölfar skjálftans á miðvikudag í síðustu viku og hinn strax í kjölfar óróapúlsins.
Átaksfé frá ríkisstjórninni komið að góðum notum
Að sögn Gunnars hefur það reglulega komið fyrir að vefurinn erfiði þegar heimsóknir eru margar og að það sé ekki bundið við jarðskjálfta. Aðrir stórir viðburðir í veðri hafa reynt á vefinn í gegnum tíðina. Þá segir hann að eftir að óveður gekk nýverið yfir landið sem ógnaði innviðum á borð við rafmagnslínur varð umræða um almannavarnahlutverkið háværari. Í kjölfarið hafi Fyrr á þessu ári hafi Veðurstofan því fengið sérstakt átaksfé frá ríkisstjórninni til þess að efla vefinn og það hafi komið sér mjög vel.
„Við höfum sett okkur mjög há markmið og við erum að endurskoða þessa hluti alla saman og það er klárlega verið að bæta úr. En betur má ef duga skal. Stofnunin sem slík er alveg staðráðin í að gera betur heldur en hefur verið hægt undanfarin ár. Og átaksfé ríkisstjórnarinnar hjálpar okkur gríðarlega þar,“ segir Gunnar.