Hún er farin að sveigjast upp á ný. Kúrfan margumtalaða. Á aðeins átta dögum hafa níutíu manns greinst með kórónuveiruna innanlands. Fjöldinn hefur verið í kringum tíu flesta dagana en í gær, mánudag, varð sprenging: 38 smit greindust. 163 eru nú í einangrun á landinu og rúmlega 450 manns eru í sóttkví. Sú tala gæti átt eftir að hækka hressilega í dag.
[adspot}
Þetta er að gerast á sama tíma og mikill meirihluti fullorðinna Íslendinga er fullbólusettur eða rúmlega 252 þúsund manns.
Einn liggur á sjúkrahúsi með COVID-19. Í fréttum í gær kom fram að einkenni hans væru ekki alvarleg.

Tæplega 80 prósent þeirra sem greindust innanlands í gær voru utan sóttkvíar eða 29 einstaklingar. Flestir sem eru sýktir eru á aldrinum 18-29 ára eða 71. Næstflestir smitaðra eru á aldrinum 30-39 ára. Um 78 prósent fólks á þessum aldri er þegar fullbólusett, að því er fram kemur á covid.is.
Ellefu börn sautján ára eða yngri eru smituð af COVID-19. Eitt þeirra er innan við árs gamalt.