Líftæknifyrirtækið Ísteka framleiðir nú um 10 kíló á ári af efni sem notað er í lyf til að auka frjósemi svína og fleiri húsdýra í landbúnaði. Til stendur að auka framleiðsluna um 100 prósent á næstu árum en til að framleiða 20 kíló af lyfjaefninu þarf um 600 tonn af blóði úr fylfullum merum.
Þetta er meðal þess fram kemur í greinargerð fyrirtækisins sem fylgir tilkynningu þess til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðrar stækkunar. Lyfjaframleiðsla Ísteka, auk rannsóknarstofu, lagers og skrifstofu er nú til húsa að Grensásvegi en verið er að bæta við starfsstöð á Eirhöfða. Þar verður móttaka hráefnis, merablóðsins, forvinnsla þess auk rannsóknarstofu. Skipulagsstofnun hefur komist að því að framkvæmdin, þ.e. hin nýja starfsstöð, sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lagði fram frumvarp á Alþingi í vetur um að bannað verði að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu. Frumvarpið, ekki síst greinargerð þess, vakti hörð viðbrögð sem birtist m.a. í umsögnum nokkurra dýralækna og annarra sem að blóðmerahaldi koma.
Fylfullar hryssur framleiða hormón sem kallast equine chorion gonadotropin (eCG), áður kallað pregnant mare serum gonadotropin (PMSC). Blóðtaka úr fylfullum merum, sem hormónið er svo unnið úr, hefur farið fram hér á landi allt frá árinu 1979 eða í rúmlega 40 ár. Um 100 bændur eru í samstarfi við Ísteka og halda þeir samanlagt um 5.000 merar til blóðtöku. Í maí er stóðhestum sleppt „ í mátulega stóra hryssuhópa“, líkt og fram kemur í umsögn Dýralæknafélags Íslands um fyrirkomulagið og teknir úr þeim á tilskildum tíma þannig að sem flestar hryssur toppi í meðgönguhormóninu ECG á blóðsöfnunartímabilinu. Blóðtakan, sem dýralæknar framkvæma, fer fram í blóðtökubási á búinu, að undangenginni staðdeyfingu, á viku fresti. Að hámarki fimm lítrar eru teknir úr hverri meri í hvert sinn. Tekið er blóð úr hverri hryssu að jafnaði fimm sinnum að sumri og aldrei oftar en átta sinnum. Miðað við þessar upplýsingar af síðu Ísteka má reikna með að 25-40 lítrar af blóði séu teknir úr hverri fylfullri meri.
Í dag er nánast allt lyfjaefnið sem unnið er úr hryssublóðinu hjá Ísteka flutt út. Úr því eru svo unnin frjósemislyf sem notuð eru um allan heim í landbúnaði „til meðferðar frjósemisvandamála í húsdýrum og samstillingar gangmála,“ líkt og segir íumsögn Félags atvinnurekenda um frumvarp Ingu Sæland.
Verðmæti úr hreinni náttúru
Á heimasíðu Ísteka segir að fyrirtækið sé líftæknifyrirtæki sem skapi „velferð og verðmæti með skynsamlegri nýtingu hugvits og hreinnar íslenskrar náttúru“. Það hafi verið stofnað árið 2000 og þar starfi nú um 40 starfsmenn. Ísteka starfar samkvæmt leyfi frá Lyfjastofnun.
Á nýlega birtu upplýsingablaði sem finna má á vef Ísteka segir að svokallaðir velferðarsamningar hafi verið gerðir við þá 99 bændur sem eru í samstarfi við fyrirtækið. Í þessum samningum er að finna ýmis ákvæði, s.s. hvað varðar gæði beitarlands hryssanna og að Ísteka hafi eftirlitsheimild á bæjum þeirra. Í samningunum eru auk þess bannákvæði. Bannað er að eyða fóstrum hryssa sem blóð er tekið úr og blóðtaka er ekki heimil á þeim bæjum þar sem „velferðarfrávik“ hafa komið upp samkvæmt Matvælastofnun.
„Verðið á gjafablóðinu hefur hækkað langt umfram aðrar landbúnaðarvörur síðustu 20 ár,“ skrifar Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka,í nýlegri grein á vef fyrirtækisins. „Bændum í samstarfi við Ísteka hefur jafnframt fjölgað mikið og eru þeir dreifðir um allt landið og hjálpa víða til við að tryggja búsetu í brothættum byggðum. Í tengslum við kórónuveirufaraldurinn ákvað Ísteka að greiða samstarfsbændum sínum sérstaka eingreiðslu eftir seinasta tímabil. Nam aukagreiðslan 6% af verðmæti innlagðra afurða 2020.“ Velta fyrirtækisins á ári er um 1, 7 milljarður króna.
Í greinargerð með frumvarpi Flokks fólksins, sem lagt var fram á Alþingi í febrúar og er nú á borði atvinnuveganefndar, segir að blóðtaka úr lifandi hrossum sé „virkur iðnaður“ á Íslandi og að á nokkrum stöðum sé hann orðinn að „stórbúskap“ þar sem haldnar séu allt að 200 merar í blóðframleiðslu. „Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er þar til hormónið fyrirfinnst ekki lengur í blóði þeirra og þá er þeim slátrað,“ segir í greinargerðinni. „Folöldin fara að jafnaði beint í slátur.“ Þá segir að það brjóti gegn „öllum sjónarmiðum um velferð dýra að rækta hross til blóðframleiðslu í gróðaskyni“.
Ekki frábrugðið öðru búrfjárhaldi
Blóðtaka úr fylfullum hryssum til framleiðslu á frjósemislyfjum fyrir önnur húsdýr er í „megindráttum ekki frábrugðin öðru afurðagefandi búfjárhaldi,“ segir í umsögn Dýralæknafélags Íslands um frumvarpið. Á blóðsöfnunartímabilinu meti dýralæknar heilsufar hryssanna. Folöldum þeirra sé ýmist slátrað, sett á sem „framtíðar blóðgjafar“ eða sem reiðhestar.
Það er mat félagsins að þau skilyrði sem Matvælastofnun setji um starfsemina og það eftirlit sem haft er með henni í dag tryggi velferð dýranna. „Dýralæknafélagið getur því alls ekki tekið undir það sem kemur fram í greinargerðinni [með frumvarpinu] að starfsemin hafi slæm áhrif á líf og líðan þeirra dýra sem notuð eru.“
Flutningsmönnum og þingi til vansa
Í umsögn tveggja dýralækna, Gests Júlíussonar og Elfu Ágústsdóttur, segir að frumvarpið sé aðför að starfsheiðri stéttarinnar og „flutningsmönnum og þinginu til vansa“. Þá er það þeirra mat að blóðtakan úr hryssunum sé ekki „mikið inngrip í líf eða velferð“ þeirra og sé „á pari við mjólkun, járningar eða rúning og augljóslega minna inngrip en slátrun“.
Gestur og Elfa telja engin vísindaleg rök hníga að því að hryssum verði meint af blóðtökunni. „Stærsta ógn við dýraríkið,“ segja þau svo, „má ekki vera öfgafull dýravelferð þar sem velferðin er svo mikil að ekki verði nein dýr eftir“.
Guðmar Aubertsson dýralæknir, sem kemur að því að taka blóð úr hryssunum, skrifar í sinni umsögn að það blóð sé tekið í hóflegu magni og segist ekki hafa orðið var við að gengið sé of nærri hryssunum. Nefnir hann að blóðmerahald hafi haldið lífi í mörgum bændum og „stuðlað að því að sveitir landsins haldist í byggð“.
Í umsögn Helga Sigurðssonar dýralæknis, sem kom að blóðtöku úr hryssum fyrir fjörutíu árum en fylgdist með þeim aftur síðasta sumar, kemur fram að segja megi að eina þvingunin sem merarnar séu beittar í dag sé múll sem á þær er settur til að festa þær í blóðtökubásinn. Þeirri þvingun aðlagist þær fljótt. „Þá er það mikil breyting frá því fyrir 40 árum að nú er notað deyfilyf á stungustað þannig að blóðtakan verður sársaukalaus,“ skrifar Helgi. „Ef það er þessi þvingun sem fer í bága við dýraverndarlög má með sömu rökum banna það að temja hesta. Þar er ögunin og þvingunin margfalt meiri auk þess sem maðurinn situr klofvega á hestunum og lætur hann lúta sínum vilja.“