Í gær greindust 76 smit af kórónuveirunni innanlands. Nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa er þar með komið upp í 83,7. Yfir þúsund manns eru í sóttkví og 371 er í einangrun. Þrír liggja á sjúkrahúsi vegna COVID-19. Tæplega 3.600 sýni voru tekin í gær.
54 af þeim sem greindust innanlands í gær voru bólusettir og 22 voru óbólusettir. Um 60 prósent þeirra voru utan sóttkvíar. Af þeim sem eru nú með COVID-19 eru flestir eða 173 á aldrinum 18-29 ára. 29 börn, sautján ára eða yngri, eru smituð. Þar af eru þrjú börn innan við eins árs aldur.
Ríkisstjórnin fundar í dag um tillögur sóttvarnalæknis að hertum aðgerðum innanlands. Hann sagðist á upplýsingafundi í gær ekki ætla að bíða eftir faraldri innlagna, þá yrði „of seint í rassinn gripið“.
Það er delta-afbrigðið sem er að greinast hér þessa dagana líkt og víðast hvar í Evrópu. Afbrigðið er bráðsmitandi og rannsóknir hafa sýnt að bóluefni veita ekki jafngóða vörn gegn því og öðrum.
Fjöldi smita hefur nú tvo daga í röð verið á áttunda tug og slíkar tölur hafa ekki sést hér á landi frá því í byrjun október er þriðja bylgjan var skollin á.