Íbúar Þýskalands sem og ferðamenn sem sækja landið heim gefst nú kostur á að kaupa hinn svokallaða níu evru miða sem gildir í nánast allar tegundir svæðisbundinna almenningssamgangna þar í landi, og það í heilan mánuð. Níu evrur jafngilda tæpum 1300 krónum. Miðinn í almenningssamgöngur innan þýskra borga, svo sem í neðanjarðarlestir, sporvagna og strætisvagna sem og í lestum sem ganga á milli borga innan sama sambandsríkis. Níu evru miðinn hefur staðið fólki til boða frá upphafi júnímánaðar og gildir út ágúst. Þannig gefst fólki kostur á að ferðast með almenningssamgöngum innan Þýskalands í alls þrjá mánuði fyrir ekki nema 27 evrur, eða tæpar 3800 krónur.
Stjórnvöld hafa eyrnamerkt þessu samgönguátaki 2,5 milljarða evra, upphæð sem samsvarar 350 milljörðum króna en níu evru miðinn var samþykktur á þýska sambandsþinginu í síðari hluta maí. Níu evru miðinn er hluti af aðgerðapakka stjórnvalda sem ætlað er að styðja við bakið á þýskum almenningi á tímum hækkandi verðbólgu. Með þessu vilja stjórnvöld stuðla að umhverfisvænni samgönguvenjum og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis en verð þess hefur hækkað umtalsvert frá því innrás Rússa inn í Úkraínu.
Vitnað er til orða samgönguráðherra Þýskalands, Volker Wissing, í umfjöllun Deutsche Welle um samgönguátakið, en í maímánuði sagði hann: „Allir sem nota almenningssamgöngur hjálpa til við að venja okkur af orku sem keypt er frá Rússlandi sem og færa okkur nær kolefnishlutleysi.“
Gildir ekki í hraðlestir
Líkt og áður segir, gildir miðinn aðeins í svæðisbundnar almenningssamgöngur. Töluverða útsjónarsemi þarf því ef fólk ætlar að leggja af stað í langferð með svæðisbundnu lestunum en miðinn gildir ekki í hraðlestum Þýskalands. Þrátt fyrir það geta handhafar skotist til nokkurra borga sem ekki eru í Þýskalandi. Þannig má ferðast með svæðislest Bæjaralands til Salzburg og Kufstein í Austurríki. Sömuleiðis geta handhafar miðans tekið lest frá Aachen, vestustu borgar Þýskalands, til nokkurra áfangastaða í Hollandi og Belgíu.
Miðinn gildir frá fyrsta degi hvers mánaðar til loka hans, þar af leiðandi gildir níu evru miði sem keyptur er í dag einungis fram á fimmtudag, 30. júní. Það eru samt sem áður kostakjör, stök ferð frá Brandenborgarflugvelli á aðallestarstöðina í Berlín kostar 3 evrur og 80 sent, um 530 krónur, og stök ferð í neðanjarðarlest Berlínar, U-Bahn, kostar þrjár evrur eða um 420 krónur.
Betri samgöngur frekar en ódýrari
Skiptar skoðanir eru uppi í Þýskalandi um þetta útspil stjórnvalda. Talskona samtaka ferðaþjónustunnar í Þýskalandi, Huberta Sasse, segir í samtali við Deutsche Welle að ódýr fargjöld muni ekki hafa langvarandi áhrif á notkun almenningssamgangna í Þýskalandi. Betra væri að styrkja innviði almenningssamgangna, koma á betri tengingum á milli borga og fjölga ferðum. Nú nota um þrettán milljónir Þjóðverja svæðisbundnar lestir á leið sinni í og úr vinnu eða skóla á degi hverjum. Þessir notendur hafa reglulega kvartað yfir troðfullum lestum, lélegri þjónustu, seinkunum og niðurfellingu ferða.
Þá er útlit fyrir að níu evru miðinn muni helst nýtast íbúum borga en ekki þeim íbúum strjálbýlli svæða sem hafa litla möguleika á að nota almenningssamgöngur.
Gengið vonum framar
Að sögn samgönguráðherrans Wissing hefur níu evru miðinn gengið vonum framar. Í samtali við Der Spiegel í vikunni sagði hann stjórnvöld í mörgum sambandsríkjum hafa verið hikandi í upphafi og jafnvel ekki viljað taka miðann í gagnið en nú sé komið annað hljóð í strokkinn og flestir vilja halda verðinu í sama horfi.
Þrátt fyrir stuðning Græningja og Jafnaðarmanna við framlengingu níu evru miðans verða þessi kostakjör ekki framlengd. Það er fyrst og fremst vegna mikils kostnaðar sem fylgir samgönguátakinu en hann nemur yfir milljarði evra á mánuði.