Fimm meðlimir aðgerðahópsins Just Stop Oil ruddust inn á Silverstone kappakstursbrautina í Bretlandi um síðustu helgi þegar þar fór fram keppni í Formúlu 1 kappakstrinum. Keppnin var skammt á veg komin en aðgerðasinnarnir komu sér yfir grindverk við keppnisbrautina fljótlega eftir árekstur sem varð strax við upphaf kappakstursins.
Í árekstrinum valt bíll Zhou Guanyu og hann skall á miklum hraða á varnarvegg sem skilur að keppnisbrautina og áhorfendapalla. Brautarverðir veifuðu í kjölfarið rauðum fánum sem gefa ökumönnum það til kynna að keppni sé frestað og að ökumennirnir þurfi því að draga úr hraða sínum og koma sér aftur á hið svokallaða þjónustusvæði sem er ekki hluti af keppnisbrautinni sjálfri.
Þrátt fyrir að rauðum flöggum hafi verið veifað voru bílar enn úti á brautinni þegar mótmælendurnir létu til skarar skríða, líkt og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan. Eftir að hafa komið sér yfir girðingar og út á brautinna settust þeir á malbikið til að vekja athygli á málstað sínum. Skömmu eftir að mótmælendurnir komu sér fyrir á keppnisbrautinni voru þeir dregnir í burtu af starfsfólki Silverstone.
Á heimasíðu samtakanna segir að aðgerðahópurinn krefjist þess að stjórnvöld í Bretlandi stöðvi frekari áform um ný verkefni í olíu- og gasvinnslu. Hópurinn heitir því að halda áfram að trufla bæði íþrótta- og menningarviðburði þar til að bresk stjórnvöld mæti kröfum þeirra.
Fremstu ökuþórar heims tóku upp hanskann fyrir mótmælendur
Í umfjöllun Guardian kemur fram að uppátækið hafi ekki farið fram hjá fremstu ökuþórum heims. Sebastian Vettel, sem er fjórfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, sagði eftir keppnina að hann sýndi mótmælendunum skilning. Vettel sem sjálfur segist vera baráttumaður fyrir loftslagsmálum sagði þó að það skipti máli hvernig að mótmælum væri staðið, aðgerðir Just Stop Oil hópsins hefðu getað stefnt bæði mótmælendum og kappakstursmönnum í hættu.
Sjöfaldur heimsmeistari Lewis Hamilton tók í sama streng. „Ég elska það að fólk sé að berjast fyrir plánetunni. Við þurfum á fleira fólki eins og þeim að halda,“ sagði Hamilton að kappakstrinum loknum. Í færslu á samfélagsmiðlinum Instagram gerði hann fylgjendum sínum það aftur á móti ljóst síðar að hann væri ekki samþykkur aðferðum hópsins.
Líkt og segir á vef samtakanna beina þau sjónum sínum ekki einvörðungu að íþróttum. Á allra síðustu dögum hafa þau farið mikinn á mörgum af mest sóttu listasöfnum Bretlands. Þar hafa meðlimir hópsins límt hendur sínar fastar við ramma margra heimsþekktra listaverka.
Uppfærðu eitt þekktasta málverk enskrar listasögu
Á mánudag, degi eftir aðgerðir Just Stop Oil hópsins á Silverstone, límdu tveir meðlimir sig fasta við ramma málverksins Heyvagninn (e. The Hay Wain) eftir John Constable. Málverkið sem fullgert var árið 1821 má finna í National Gallery í London sem er eitt af mest sóttu söfnum Bretlands. Áður en aðgerðasinnarnir límdu sig við ramma verksins var það þakið með útprentaðri „nýrri útgáfu“ listaverksins, þar sem búið var að skipta ánni í mynd Constable út fyrir malbikaðan veg. Þar að auki hafði flugvélum og mengandi verksmiðjum, svo eitthvað sé nefnt, verið bætt inn í áður rómantíska sveitamynd Constable.
„Við höfum þakið Heyvagninn með endurtúlkun á listaverkinu sem sýnir sýnir hvaða áhrif fíkn okkar í jarðefnaeldsneyti hefur á sveitir landsins. Málverkið er mikilvægur hluti af okkar arfleifð, en það er ekki mikilvægara en líf þriggja og hálfs milljarðs manna, kvenna og barna sem nú þegar eru í hættu vegna hamfarahlýnunar,“ er haft eftir Eben Lazarus í tilkynningu frá Just Stop Oil en hann sat fastur í National Gallery á mánudag eftir að hafa límt sig við téð málverk.
„Já, það kann að vera lím á ramma þessa málverks en það er blóð á höndum ríkisstjórnar okkar,“ sagði Hannah Hunt um málið en hún sat við hlið Ebens í National Gallery.
Límdu sig föst við málverk eftir van Gogh
Fleiri listasöfn hafa fengið meðlimi Just Stop Oil í heimsókn. Þannig límdu tvö úr hópnum sig föst við málverkið Ferskjutré í blóma (e. Peach Trees in Blossom) eftir Vincent van Gogh í Courtauld Gallery í London í lok júní.
Myndina málaði van Gogh í grennd við Arles árið 1889. Arles er í Provence héraði í Frakklandi en þar hefur nýlega verið varað við miklum þurrkum. Lítil úrkoma var á svæðinu í vetur og í vor og nú í maí og júní gekk hitabylgja yfir svæðið.
„Ég elskaði þetta málverk sem barn, faðir minn fór með mig hingað til að sjá það þegar við heimsóttum London. Enn þann dag í dag elska ég þetta málverk, en ég elska vini mína og fjölskyldu meira, ég elska náttúruna meira. Framtíð kynslóðar minnar skiptir mig meira máli heldur en hvaða skoðun almenningur hefur á mér,“ var haft eftir hinum 21 árs Louis McKechnie í tilkynningu frá Just Stop Oil en hann límdi sig fastan við ramma málverksins ásamt Emily Brocklebank.
Hafa einnig látið til sín taka á fótboltaleikjum
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem McKechnie tekur þátt í aðgerðum af hálfur hópsins. Í mars náði hópurinn augum heimsbyggðarinnar þegar hann festi sig með bensli við stöng á fótboltamarki í leik Everton og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni. Stöðva þurfti leikinn í um átta mínútur á meðan starfsfólk losaði McKechnie frá markinu. Benslið sem hann hafði notað til að festa háls sinn við stöngina var á endanum klippt með vírklippum.
"It's 2022 and it's time to look up, time to step up and not stand by. It's time to act like it's an emergency" pic.twitter.com/YjBQalRBpk
— JustStopOil (@JustStop_Oil) March 17, 2022
Að leik loknum tísti sjónvarpsmaðurinn Gary Lineker um atvikið en hann var eitt sinn fyrirliði landsliðs Englands í knattspyrnu. „Hvort sem þú samþykkir aðferðir þessa unga manns eða ekki, þá hefur hann rétt fyrir sér, framtíð hans er víðsjárverð,“ sagði Lineker meðal annars í tísti sínu.
Svo virðist sem hópurinn vinni að aðgerðum sínum í eins konar hrinum. Í vikunni sem McKechnie tjóðraði sig við markstöngina í leik Everton og Newcastle trufluðu meðlimir hópsins að minnsta kosti þrjá aðra knattspyrnuleiki með svipuðum aðgerðum. Þessa vikuna hefur hópurinn ákveðið að beina sjónum sínum að listasöfnum, því til viðbótar við fyrrnefndar uppákomur í London hafa meðlimir hópsins límt sig fasta við ramma málverka í Manchester Art Gallery og í Glasgow Art Gallery. Nú á þriðjudag límdu svo tveir meðlimir hópsins sig fasta við eftirmynd málverks Leonardos da Vinci, Síðasta kvöldmáltíðin, sem finna má í Royal Academy í London. Alls voru fimm sem límdu sig föst við ramma málverksins í Royal Academy.