Stjórn Reiknistofu lífeyrissjóða hf. (RL) hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort grípa þurfi til aðgerða eftir að niðurstöður úttektar á samningi milli RL og Init ehf. um rekstur hugbúnaðarkerfisins Jóakims birtust í byrjun júlí. Þetta segir Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri RL í samtali við Kjarnann.
Kjarninn óskaði eftir því að fá úttektina í heild sinni en RL birti einungis niðurstöðurnar þegar þær lágu fyrir fyrr í sumar. Í skriflegu svari framkvæmdastjórans kemur fram að hann geti ekki sent blaðamanni úttektina í heild sinni. „Niðurstöður hennar eru aðgengilegar á vef okkar,“ segir í svarinu.
Tæpur milljarður fór út úr Init til Init-reksturs á sex árum
Kveikur fjallaði um málið í lok apríl síðastliðins en þar kom fram að þjónustufyrirtækið Init hefði rukkað lífeyrissjóði og verkalýðsfélög um vinnu sem efasemdir væru um að stæðist lög.
Í þætti Kveiks kom fram að hundruð milljóna króna hefðu streymt út úr félaginu Init og til annars félags í eigu stjórnenda Init. Það félag heitir Init-rekstur. Á árunum 2013 til 2019 fór tæpur milljarður króna út úr Init til Init-reksturs.
Init annaðist rekstur tölvukerfis, sem kallast Jóakim og heldur meðal annars utan um öll réttindi þeirra sem greiða í lífeyrissjóði. Jóakim er í eigu tíu lífeyrissjóða og ýmis verkalýðsfélög greiða fyrir notkun á kerfinu.
Samningsbrot af hálfu Init
Ernst & Young ehf. (EY) skilaði, eins og áður segir, af sér úttekt á samningi milli RL og Init ehf. um rekstur hugbúnaðarkerfisins Jóakims en þess má geta að RL sagði upp samningi sínum við Init í byrjun júní. Í fyrrnefndri úttekt kom meðal annars fram að Init hefði brotið samninga við RL. Fram kom hjá RL að þar hefði vegið þyngst viðskiptasamband Init ehf. við undirverktaka án heimildar RL, annars vegar við félag með sama eignarhald, Init rekstur ehf., og hins vegar við nokkur félög í eigu stjórnenda Init.
Fram kom í úttektinni að ekki yrði séð að eðlilegur rekstrartilgangur hefði að öllu leyti legið að baki greiðslum milli umræddra félaga.
Stjórn RL vinnur enn að málinu
Í tilkynningu RL, sem birtist með niðurstöðunum, kom fram að stjórn RL myndi „á næstu vikum fara ítarlega yfir þessar niðurstöður úttektarinnar og skoða hvort gripið verði til aðgerða á grunni þeirra“.
Framkvæmdastjóri RL, Almar Guðmundsson, segir í samtali við Kjarnann að enn sé verið að vinna að málinu. Stjórnin hafi enn ekki tekið ákvörðun um framhaldið en að sérfræðingar á þeirra vegum skoði nú málið.
Varðandi það að birta skýrsluna í heild sinni þá segir Almar að þau hafi lagt áherslu á að allar niðurstöður væru opinberaðar og að það hafi þau gert. „Við teljum að það sé nóg,“ segir hann. Hann segir enn fremur að Jóakim sé gríðarlega mikilvægt kerfi og þess vegna vinni þau hjá RL að málinu nú af festu.
Hann getur ekki nefnt hvenær nákvæmlega von sé á niðurstöðu stjórnar RL.
Segir lestur úttektarinnar skilja eftir margar spurningar
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar gerði úttektina að umræðuefni á Facebook-síðu sinni þegar hún kom út en þar gagnrýnir hann ýmsa anga málsins.
„Því miður er það svo, að lestur þessarar samantektar skilur margar spurningar eftir ósvaraðar, rétt eins og maður óttaðist. Hvers vegna birta lífeyrissjóðirnir til að byrja með ekki skýrslu Ernst & Young í heild sinni, óstytta? Það sem er birt á netinu er efnisrýr, loðinn og almennur texti, þar sem lesandinn á þess engan kost að leggja sjálfstætt mat á eitt eða neitt. Til upprifjunar varðandi efnisatriði málsins, þá er stærsta spurningin sú hvers eðlis fjármagnstilfærslurnar milli Init og annarra fyrirtækja í eigu starfsmanna Init, sem enduðu sem arðgreiðslur í vasa þeirra, voru í reynd,“ skrifaði hann.
Spyr hann hvaða skýringar hafi komið fram á því við vinnslu úttektarinnar. „Hver er trúverðugleiki þeirra skýringa? Er ástæða til að ætla að t.d. bókhaldslagabrot eða skattalagabrot hafi verið framin?“ spyr hann.
„Þessu er ekki í svarað í þessari skýrslu sem lífeyrissjóðirnir bera nú á borð. Maður hefði haldið að þetta væri aðalviðfangsefni skýrslunnar, það sem málið snýst um. Í raun er það afrek að það hafi tekist að svara ekki þessum spurningum! Hvað fengu Ernst & Young borgað fyrir þetta? Í staðinn fyrir að svara þessum spurningum tekst þeim þó að þyrla upp ryki í kringum alls kyns aukaatriði, eins og t.d. „heildarumgjörð samningsmála er varða persónuverndarmál“ sem sögð er hafa verið „óljós“!“
Bendir hann að endingu á að ekki hafi verið haft samband við hann af hálfu Ernst & Young vegna þessarar úttektar en að frumkvæði stjórnar Eflingar hefði hann haft samband við Gildi sumarið 2020 til að koma á framfæri sömu upplýsingum um Init og þeim sem fjallað var um í þætti Kveiks fyrr á þessu ári.
Lífeyrissjóðirnir hafa nú birt stytta útgáfu af skýrslunni sem þeir létu Ernst & Young gera fyrir sig vegna...
Posted by Vidar Thorsteinsson on Wednesday, July 7, 2021