Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, skrifar um niðurfellingu á verðtryggðum húsnæðislánum, hina svokölluðu Leiðréttingu.
Undir lok ársins 2014 var því sem ríkisstjórnin kallar Leiðréttinguna hrint í framkvæmd. Þetta er um margt mjög áhugaverð efnahagsaðgerð. Um það bil 80 milljarðar króna eru teknir úr sameiginlegum sjóðum og notaðir til að lækka höfuðstól húsnæðislána nokkuð stórs hóps landsmanna.
Gylfi Magnússon, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Nafnið á áætluninni er auðvitað skemmtilega óskammfeilið. Látið sem verið sé að leiðrétta eitthvað. Breyta einhverju sem var rangt og gera það rétt. Það er mjög langsótt. Það er ekkert rangt við þau lán sem lækka. Þau hafa einfaldlega hækkað að nafnvirði eða krónutölu þegar hver króna varð sífellt minna virði.
Skuldin hefur ekkert hækkað að raunvirði við það. Það er eðli verðtryggðra lána og það vissu væntanlega allir sem tóku slík lán. Grunnmisskilningurinn hér er að halda – eða þykjast halda – að krónan sé eins og einingarnar í metrakerfinu, tákni alltaf það sama, hvort sem það þarf 10 slíkar til að kaupa lítra af mjólk eða 100. Það er engin leiðrétting fólgin í því að lækka slík lán með frekar handahófskenndum hætti og senda skattgreiðendum reikninginn.
Hins vegar er auðvitað rétt að mjög margir urðu fyrir tjóni í sviptingum undanfarinna ára, m.a. þeir sem keyptu sína fyrstu fasteign þegar verð þeirra var hátt og horfðu svo upp á eigið fé hverfa þegar verðið lækkaði aftur. Vandinn hér er sveiflur í fasteignaverði, bóla sem þenst út og springur. Nákvæmlega það sama gerðist í fjölda annarra landa með sömu afleiðingum án þess að lán væru verðtryggð.
Meginvandinn við hina meintu leiðréttingu er að það er reynt að taka á síðari vandanum, sveiflum í fasteignaverði og búsifjum fasteignakaupenda vegna þess, með því að hræra í lánunum sem á húsnæðinu hvíla. Það er einstaklega ómarkviss leið
Meginvandinn við hina meintu leiðréttingu er að það er reynt að taka á síðari vandanum, sveiflum í fasteignaverði og búsifjum fasteignakaupenda vegna þess, með því að hræra í lánunum sem á húsnæðinu hvíla. Það er einstaklega ómarkviss leið, jafnvel þótt menn fallist á, sem ekki er erfitt, að rétt sé að skipta þessum byrðum á fleiri en eingöngu þá sem sannanlega urðu fyrir tjóni.
Dýrt og árangursrýrt
Fyrir vikið verður þessi efnahagsaðgerð óskaplega dýr og árangursrýr. Megnið af kostnaðinum er vegna peninga sem renna úr ríkissjóði til fólks sem hefur litla þörf fyrir þá. Margir þeirra hafa raunar ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna sviptinga á fasteignamarkaði, t.d. þeir sem keyptu sér sitt fyrsta húsnæði áður en bólan tók að þenjast út af krafti síðla árs 2004.
Þeir sem urðu fyrir mestu tjóni eða þurfa mest á aðstoð að halda fá í mörgum tilfellum lítið eða jafnvel ekki neitt. Ein ástæða þess er að fyrri aðstoð er dregin frá greiðslum vegna hinnar svokölluðu leiðréttingar. Af því að hún var að hluta tekjutengd verður tekjutengingin öfug núna, mest fer til fólks með tiltölulega háar tekjur. Annað sem veldur því er auðvitað sú staðreynd að tekjuhátt fólk býr almennt í dýrari húsum en tekjulágt og skuldar meira. Þeir tekjulægstu eiga raunar sjaldan eigið húsnæði og fá því ekkert út úr þessari aðgerð, óháð því hve grátt sviptingar undanfarinna ára hafa leikið þá.
Aðgerðin var sem sé samþykkt án þess að fyrir lægi nema að litlu leyti hvernig hún myndi nýtast. Það á ekki að gefa upp fyrr en í sérstakri skýrslu á næsta ári.
Það er þó ekki hægt að fullyrða hve mikið af milljörðunum 80 fer til spillis í þessum skilningi. Skýringin er að einungis mjög takmarkaðar upplýsingar hafa verið gefnar um það hvernig þessir 80 milljarðar skiptast á hópa. Það var bara kynnt með glærusýningu sem vakti fleiri spurningar en hún svaraði. Aðgerðin var sem sé samþykkt án þess að fyrir lægi nema að litlu leyti hvernig hún myndi nýtast. Það á ekki að gefa upp fyrr en í sérstakri skýrslu á næsta ári.
Aðgerð sem þessa verður auðvitað að vega og meta út frá því annars vegar hvaða árangri hún skilar og hins vegar hverju hefði verið hægt að ná fram með sama tilkostnaði með annarri ráðstöfun þessa fjár.
Ýmislegt hægt að gera fyrir 80 milljarða
Fyrir 80 milljarða hefði verið hægt að gera töluvert. Það hefði verið hægt að bæta heilbrigðiskerfið (hefði líklega dugað langleiðina fyrir nýjum Landspítala), menntakerfið eða vegakerfið. Það hefði verið hægt að bæta mjög hag þeirra verst settu í samfélaginu með auknum framlögum til bótakerfisins. Það hefði verið hægt að lækka skatta – nú eða sleppa því að hækka þá. Það hefði t.d. mátt sleppa því alveg að hækka matarskattinn. Það hefði líka mátt lækka skuldir hins opinbera. Það hefði jafnvel verið hægt að kaupa heilu skipsfarmana af vélbyssum fyrir lögregluna ef út í það er farið. Nú eða reisa tvær Hörpur í Skagafirði. Listinn er nánast endalaus.
En ekkert af þessu var gert. Um það var tekin pólitísk ákvörðun. Sú ákvörðun kom auðvitað ekki á óvart. Hún var óumflýjanleg í ljósi þeirra loforða sem gefin höfðu verið í síðustu kosningabaráttu. Blessunarlega varð þó upphæðin sem varið var í þetta einungis brot af því sem gefið var í skyn í aðdraganda kosninganna.
Í lýðræðisþjóðfélagi er auðvitað skrýtið að skamma stjórnmálamenn þegar þeir hrinda því í framkvæmd sem þeir hafa fengið umboð kjósenda til að gera, eins og í þessu tilfelli. Þá er í raun við kjósendurna sjálfa að sakast, eða a.m.k. þann hluta þeirra sem veitti slíkt umboð.
Það sama átti auðvitað við í bólunni sem leiddi til hrunsins. Ríkisstjórnir þess tíma höfðu nokkuð skýrt lýðræðislegt umboð til að þenja út fjármálakerfið, veikja regluverkið og taka ýmsar aðrar ákvarðanir sem kyntu undir brjálæðinu. Enda gerðu þær það. 90% íbúðalánin voru skýrt kosningaloforð sem var efnt. Það er dæmi um gráglettni örlaganna að nú skuli þeir sem tóku þau fá hluta skuldanna niðurfelldan vegna annars kosningaloforðs.
Kannski staðfestir þetta bara að Winston Churchill hafði rétt fyrir sér þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að lýðræði væri versta hugsanlega stjórnarfarið – að undanskyldum öllum öðrum sem reynd hafa verið.