Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er sagður ætla að tilkynna síðar í dag afléttingu flestra takmarkana vegna COVID-19 frá 19. júlí. Boðað hefur verið til blaðamannafundar síðdegis og samkvæmt heimildum dagblaðsins Guardian og fleiri miðla mun hann tilkynna fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar að bráðlega verði aðgerðir sem setja höft á athafnir fólks vegna veirufaraldursins ekki lögbundnar eins og verið hefur heldur á ábyrgð hvers og eins. Vísindamenn hafa margir hverjir varað við því að aflétta öllum aðgerðum og sagt það vera eins og að byggja „verksmiðju fyrir ný afbrigði“ veirunnar. Aðrir vísindamenn hafa sagt afléttingu skynsamlega á þessum tímapunkti þó áfram þurfi að rekja smit til að reyna að koma í veg fyrir stærri hópsýkingar.
Um 86 prósent fullorðinna í Bretlandi hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnis. Engu að síður hefur fjöldi greindra smita ekki verið meiri síðan í janúar er önnur bylgja faraldursins skall á landið.
Grímuskyldan afnumin?
Meðal þeirra breytinga á takmörkunum sem eru sagðar í farvatninu er að bólusettir þurfi ekki lengur að fara í sóttkví við heimkomu eftir dvöl erlendis. Einnig er talið að grímuskylda verði að mestu leyti aflétt (nema inni á heilbrigðisstofnunum) og hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort að þeir beri slíkan hlífðarbúnað. Þá er einnig talið, samkvæmt heimildum Guardian, að bólusettum verði ekki gert skylt að fara í sóttkví, verði þeir útsettir fyrir veirunni, þ.e. verið í nánum samskiptum við smitaða. Eitt af því sem einnig er á stefnuskránni eftir tvær vikur er að leyfa opnun næturklúbba á ný.
Heimildir Guardian herma einnig að í skólum þurfi hópar nemenda ekki lengur að fara í sóttkví greinist einn í þeirra hópi smitaður.
Sajid Javid, sem tók við embætti heilbrigðisráðherra í Bretlandi nýverið, hefur viðrað þau viðhorf sín að ekki sé hægt að útrýma sjúkdómnum COVID-19 heldur verði að finna leiðir til að „lifa með honum“, rétt eins og inflúensu. Hann sagði einnig um helgina að vísindaleg rök fyrir því að aflétta takmörkunum væru „óyggjandi“ en viðurkenndi á sama tíma að ný afbrigði veirunnar gætu komið fram sem bóluefni sem þegar hafa verið framleidd dugi síður gegn.
Í grein eftir Javid sem birt var í Mail on Sunday sagði að besta leiðin til að vernda lýðheilsu Breta væri að aflétta takmörkunum. „Reglur þær sem við höfum orðið að setja á hafa orðið til þess að heimilisofbeldi hefur aukist mikið og þær hafa haft skelfilegar afleiðingar á andlega heilsu fólks.“
Skynsamlegt plan
Skrif heilbrigðisráðherrans féllu ekki í góðan jarðveg hjá sumum vísindamönnum. Stephen Reicher, prófessor við St. Andrews-háskóla, sem situr í ráðgjafaráði bresku ríkisstjórnarinnar í sóttvarnaaðgerðum, segir það „ógnvekjandi“ að hafa heilbrigðisráðherra sem haldi enn að COVID-19 sé eins og flensa. Hann segir ráðherrann ekki átta sig á að það sem við gerum til að verja heilsu sé einnig gert til að verja efnahagslífið. Ráðherrann vilji afnema takmarkanir þótt aðeins um helmingur fullorðinna sé fullbólusettur.
Susan Michie, sérfræðingur í atferlisfræðum sem einnig á sæti í ráðgjafaráðinu, skrifaði á Twitter: „Að leyfa samfélagssmitum að fjölga er eins og að byggja hratt verksmiðjur fyrir ný afbrigði [veirunnar].“
Michie og tveir aðrir sérfræðingar skrifuðu grein í læknatímaritið British Medical Journal í síðustu viku. Í henni sögðu þau að ef heilbrigðisráðherrann ætlist til að hver og einn gæti sinna sóttvarna – að þær verði ekki lengur bundnar í lög og reglur – yrðu stjórnvöld fyrst að hafa uppfyllt sínar skyldur og tryggja að það sé öruggt fyrir fólk til framtíðar.
Aðrir vísindamenn eru hins vegar mun jákvæðari hvað áform um síðustu skref afléttinga varðar. Paul Hunter, sem er prófessor í læknisfræði, telur að fullbólusettir einstaklingar séu ólíklegri til að sýkjast og þá mun ólíklegri til að bera smit og sýkja aðra. Hann telur afléttingu grímuskyldu á flestum stöðum ekki hafa stóraukna áhættu í för með sér þó að hann ráðleggi „viðkvæmum hópum“ að bera grímur í miklum mannfjölda.
Lýðheilsufræðingurinn Allyson Pollock telur áform Johnson og ríkisstjórnar hans, skynsamleg. Hún segir hjarðónæmi við það að nást. Einn helsti óvissuþátturinn nú um stundir sé hversu lengi vörn sú sem bóluefni gefi vari.