Vindorkuvirkjun sem fyrirtækið Qair Iceland er með á prjónunum í Meðallandi í Skaftárhreppi, sem telja myndi á bilinu 20-40 vindmyllur, var ekki tekin til meðferðar hjá verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar sem lauk störfum í vor. Aðeins virkjanakostir sem nægjanleg gögn fylgdu að mati stjórnarinnar voru teknir til umfjöllunar. Ferli rammaáætlunar hefur setið fast í að verða fimm ár.
Þá liggur ekki fyrir stefnumörkun um nýtingu vindorku í sveitarfélaginu Skaftárhreppi en stefnt er mótun slíkrar stefnu við endurskoðun aðalskipulags sem á að vera lokið um mitt næsta ár. Umhverfismatsferli verkefnisins er komið af stað og Skipulagsstofnun auglýsti tillögu fyrirtækisins að matsáætlun í vor, eitt skrefið í umhverfismatsferlinu, og bíður nú viðbragða framkvæmdaaðila við umsögnum og athugasemdum sem bárust. Í kjölfarið tekur stofnunin ákvörðun um matsáætlun.
Á kynningafundi sem forsvarsmenn verkefnisins héldu á Kirkjubæjarklaustri í vikunni kom fram að þrátt fyrir stöðu málsins innan rammaáætlunar hefði verið ákveðið að halda áfram með verkefnið og að vonast sé til að frumatsskýrsla liggi fyrir í byrjun næsta árs og að álit Skipulagsstofnunar verði svo gefið út um mitt það ár. Sögðu þeir að vandað yrði til allra rannsókna og væru þær þegar hafnar. Niðurstaða þeirra muni svo ráða því hvort haldið verði áfram með verkefnið með mótvægisaðgerðum sem eftirlitsstofnanir samþykki.
Landvernd minnti í sínum athugasemdum við drög að matsáætlun á að virkjanir sem eru 10 MW eða stærri eigi að fara inn í ferli rammaáætlunar. Virkjunin í Meðallandi yrði yfir 130 MW. Stjórn samtakanna telur því „algjörlega ótímabært“ að hefja undirbúning að mati á umhverfisáhrifum á grundvelli framlagðrar tímaáætlunar og „hvetur alla viðkomandi aðila til að halda að sér höndum þar til hugmyndin hefur verið lögð fram, metin og raðað á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun“.
Qair svarar þeirri gagnrýni á þá leið að nú þegar séu nokkur vindorkuverkefni í vinnslu mats á umhverfisáhrifum þar sem Skipulagsstofnun hefur veitt samþykki sitt á tillögu að matsáætlun þrátt fyrir að hafa ekki enn verið tekin til meðferðar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar eða lent í biðflokki tillagna hennar. „Þessu verkefni er hrundið af stað á þessum forsendum.“
Qair áformar að reisa vindorkuvirkjun á Grímsstöðum í Meðallandi í Skaftárhreppi, með heildarafl í kringum 144 MW. Fyrirhuguð áform gera ráð fyrir 24-30 vindmyllum og að afl hverrar þeirra verði 6 MW. Gera má ráð fyrir að myllurnar verði um 150-200 metrar á hæð miðað við spaða í hæstu stöðu. Til samanburðar er Hallgrímskirkjuturn 74,5 metra hár.
Á kynningarfundinum á Kirkjubæjarklaustri kom fram að ríkið ætti stærsta hluta, eða um 90 prósent, jarðarinnar Grímsstaða og að samningaviðræður við fulltrúa þess stæðu enn yfir.
Víðáttumiklir sandar og nóg af vindi
Meðalland nær vestan frá Kúðafljóti og austur að Landbroti og Skaftá, suður af Eldhrauni. Einkenni sveitarinnar eru víðáttumiklir sandar næst sjó og mikil melalönd. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er flatt og víðfeðmt. Langt er í næstu fjöll og lítið sem skyggir á sýn til svæðisins frá næstu bæjum og vegum. Þetta gerir svæðið tilvalið fyrir vindorkuver að sögn framkvæmdaaðila en að sama skapi munu myllurnar, verði þær reistar, sjást víða að.
Qair Iceland ehf (áður Quadran Iceland Development ehf.) er dótturfélag franska fyrirtækisins Qair SA. Framkvæmdastjóri þess er Friðjón Þórðarson. Vindorkuverið á jörðinni Grímsstöðum í Meðallandi var einn af þeim 34 virkjanakostum í vindorku sem bárust verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar. Af þeim voru níu á vegum Qair en samanlagt afl þeirra hugmynda er um 800 MW. Hins vegar mat stjórnin það svo að nægjanleg gögn hefðu aðeins fylgt fimm kostanna. Vindorkuvirkjun í Meðallandi var ekki þeirra á meðal.
Qair Iceland er nú þegar með tvö önnur verkefni á sviði vindorku í gangi á Íslandi. Annað er vindorkugarður á Sólheimum á Laxárdalsheiði sem verkefnisstjórn rammaáætlunar leggur til að fari í biðflokk. Hitt er vindorkugarður á Hnotasteini á Melrakkasléttu sem stjórnin tók ekki til efnislegrar meðferðar. Hins vegar er í gangi vinna að mati á umhverfisáhrifum fyrir bæði verkefnin.
Land Grímsstaða í Meðallandi nær yfir 1.622 hektara svæði í Skaftárhreppi. Frá vegamótum við þjóðveg 1 eru um 44 kílómetrar til vesturs að Vík í Mýrdal. Nokkrir bæir eru í Meðallandi. Stysta fjarlægð frá landamörkum Grímsstaða í næsta bæ í vestur er um 2 kílómetrar. Norðan við land Grímsstaða eru tveir bæir og eru um 350 metrar í bæinn sem er nær landi Grímsstaða.
Varpsvæði álfta og mikilvæg farleið fugla
Landsvæðið sem hin fyrirhugaða virkjun myndi rísa á er skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði (e. Important Birds Area) (IBA) og er talið alþjóðlega mikilvægt varpsvæði álftar og vetrardvalarstaður gulandar. Samkvæmt flokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands fara auk þess margir vatna- og sjófuglar um svæðið bæði vor og haust. Fuglalífið er einmitt meðal þess sem gagnrýni á vindorkuvirkjunina gengur einna helst út á.
Haukur Einarsson, sérfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti sem gerði tillögu að matsáætlun fyrir Qair Iceland, sagði á kynningarfundinum á Klaustri að sérstök áhersla yrði lögð á fuglarannsóknir þar sem fuglar væru „sá umhverfisþáttur sem rannsaka þarf hvað ítarlegast þegar vindmyllur eiga í hlut. Sér í lagi hér, þar sem framkvæmdasvæðið er á svæði sem er skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði.“ Segir hann rannsóknirnar ítarlegar, tímafrekar og í þeim yrði „engu til sparað“.
„Það er gríðarlega mikið af gæs þarna í Meðallandinu,“ sagði Friðjón framkvæmdastjóri Qair Iceland á fundinum. „Það er eiginlega ótrúlegt að sjá þetta.“ Hann sagði ýmsan búnað til sem ætlað væri að fæla fugla frá, sem sendi m.a. hljóðbylgjur þegar fuglar nálgast. Þá hefði sumsstaðar verið gripið til þess ráðs að mála einn spaða hverrar myllu svartan til að vekja athygli fugla á þeim. Í Marokkó hafi svo ítrustu mótvægisaðgerðir jafnvel falist í því að stöðva vindmyllur á þeim tímabilum sem farflug fugla er hvað mest. „Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða út í hörgul enda er alveg ótrúlega mikið af gæs þarna. Þetta er í mjög nákvæmri skoðun hjá okkur.“
Í tillögu að matsáætlun kemur fram að ýmsar rannsóknir séu fyrirhugaðar af hálfu framkvæmdaaðila á fuglalífi á svæðinu, m.a. í formi vettvangsrannsókna. Þá stendur yfir ratsjárrannsókn til að skrásetja komu- og brottfarartíma farfugla og leiðir varpfugla dags og nætur og munu þær standa fram í nóvember, þ.e. í samfellt átta mánuði samkvæmt ráðleggingum Náttúrufræðistofnunar. Stofnunin bendir í sinni umsögn m.a. á að möguleg lega tengingar við flutningskerfi raforku myndi fara yfir eldhraun sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Að mati stofnunarinnar ætti heildarframkvæmdin, þ.m.t. nauðsynleg tenging við flutningskerfið, að vera hluti af heildarmati hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar.
Ekki reist nema að kaupandi sé tryggður
Qair segir í tillögu sinni að með vindorkuverinu á Grímsstöðum yrði brugðist við aukinni raforkuþörf á Íslandi og um leið bæta aðgengi á svæðinu að raforku. Skiptar skoðanir eru á því hvort að raforkuþörf muni aukast næstu árin þar sem ýmis teikn hafa verið á lofti í þeim efnum. Í athugasemdum bæði Landverndar og Eldvatna, er m.a. vakin athygli á því og svarar framkvæmdaaðili með því að leggja áherslu á að „vindorkuverið á Grímsstöðum verði aðeins byggt ef búið er að tryggja kaup á raforku“. Á fundinum sagði Friðjón að Qair væri að íhuga „mjög alvarlega“ uppsetningu verksmiðju til að framleiða vetni á Íslandi „en eins og staðan er núna er eiginlega engin orka til í landinu“.
Ingibjörg Eiríksdóttir, formaður Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi, sagðist vera ósátt við svar forsvarsmanna verkefnisins við athugasemd samtakanna við tillögu að matsáætlun, er varðar náttúruverndarlögin, en í þeim komi skýrt fram að ákveðin svæði og náttúrufyrirbæri njóti sérstakrar verndar og að þeim beri ekki að raska nema að brýna nauðsyn beri til. Benti hún sérstaklega á votlendið í Meðallandinu sem væri einstakt og stórt búsvæði margra fuglategunda. Friðjón svaraði því til að á Íslandi væri vissulega mjög mikið af mikilvægum fuglasvæðum sem þýddi í hans huga að fara bæri í mjög ítarlegar rannsóknir á viðkomandi svæði og ef þær sýndu lítil áhrif af framkvæmd fengist leyfi. Í því rannsóknarferli væri verkefnið núna. Þegar niðurstaða rannsókna lægi fyrir kæmi í ljós hvort að hægt væri að fara í framkvæmdina og hvort að mótvægisaðgerðir dygðu til. Ef ekki yrði enginn vindmyllugarður reistur í Meðallandi. Ingibjörg segist í samtali við Kjarnann fagna orðum þeirra um að niðurstaða rannsókna á t.d. fuglalífi verði látin ráða úrslitum.
Ingibjörg bendir þó á að þrátt fyrir það sem hún kallar „falleinkunn“ Skipulagsstofnunar í áliti á annarri virkjunarframkvæmd, Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti, hafi sveitarstjórn ákveðið greiða götu hennar áfram og auglýsa skipulagstillögur, sem sé afgerandi stefnumótandi ákvörðun. Hún segir að ábyrgð sveitarstjórna í skipulagsmálum sé rík, og gagnrýnir harðlega slíka stjórnsýslu í fámennu en landmiklu sveitarfélagi líkt og hér um ræðir. Þriggja manna meirihluti Sjálfstæðismanna í Skaftárhreppi, með 141 atkvæði á bak við sig, beri skipulagsábyrgð á um 7 prósentum Íslands; svæði sem sé „stútfullt“ af fyrirbærum sem njóti sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Slíkt fyrirkomulag hljóti að vera umhugsunarvert.
Á þetta benti hún á fundinum og Friðjón svaraði því m.a. til að allir gerðu sér grein fyrir því að risastórir turnar í Meðallandi myndu hafa einhver áhrif á umhverfið en að reynt yrði að hafa þau sem minnst og í sem mestri sátt við nærsamfélagið.
Rammaáætlun í algjörum hnút
Í haust verða fimm ár liðin síðan að verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar skilaði sínum lokatillögum um flokkun virkjanakosta til umhverfisráðherra. Þær voru teknar óbreyttar upp í þingsályktunartillögu sem lögð var fram þá um haustið. Sá áfangi hefur hins vegar enn ekki verið afgreiddur á Alþingi en tillagan var enn á ný lögð fram, óbreytt, í desember. Verkefnisstjórn fjórða áfanga áætlunarinnar lauk svo störfum í vor og vegna allrar þeirrar óvissu sem skapast hefur um rammaáætlun, m.a. vegna tafa á fyrri áfanga, náði hún ekki að ljúka vinnu sinni að fullu. Þess í stað skilaði hún af sér drögum að tillögu um flokkun aðeins þrettán virkjanakosta og svæða. Á fjórða tug hugmynda að vindorkuvirkjunum bárust verkefnisstjórninni. „Verkefnisstjórn telur brýnt að sett verði heildarstefna um virkjun vindorku hér á landi og tekin ígrunduð ákvörðun um hvort afmarka eigi fá vel skilgreind svæði fyrir vindmyllur eða setja því litlar skorður hvar vindorkuver fá að rísa. Nú er einstakt tækifæri að setja slíka stefnu áður en framkvæmdir hefjast víða um land,“ skrifaði Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnarinnar, í tillögudrögunum sem skilað var 1. apríl.
Nú er í undirbúningi breyting á lögum um rammaáætlun hvað snertir málsmeðferð vindorku. Tilgangur þeirra er að taka af allan vafa um hvort slíkar virkjanir eigi að fara til meðferðar í áætluninni. „Þótt vindurinn sé óþrjótandi er land undir vindorkuver það ekki. Landið er hin takmarkaða auðlind í þessu tilfelli,“ skrifaði Guðrún.