Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í morgun að aflýsa öllum viðburðum vegna Menningarnætur í Reykjavík, sem halda átti hátíðlega 21. ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.
Í tilkynningu borgarinnar segir að eftir ítarlega skoðun og umræðu hafi verið einhugur í neyðarstjórn, sem skipuð er pólitískum fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans og ýmsum æðstu embættismönnum borgarinnar, um að aflýsa hátíðinni vegna útbreiðslu COVID-19 smita í samfélaginu og óvissu sem ríkir um áhrif delta-afbrigðisins á börn, unglinga og aðra viðkvæma hópa.
„Við tókum þessa ákvörðun með hagsmuni allra borgarbúa að leiðarljósi. Það er mjög leitt að þurfa að aflýsa þessum frábæra degi aftur. En við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stuðla að sem eðlilegustu lífi í borginni og órofinni þjónustu. Þar stendur efst að skólastarf fari fram með eins eðlilegum hætti og hægt er og að raska sem minnst þjónustu okkar við viðkvæma hópa, svo sem aldraða og fatlaða,“ er haft eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanni borgarráðs og staðgengli borgarstjóra um ákvörðun neyðarstjórnar.
Menningarnótt hafði verið haldin árlega frá því árið 1996 þar til kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn í fyrra. Nú er ljóst að hátíðin fellur niður að nýju þetta árið.
200 manna samkomutakmarkanir eru í gildi hér á landi til 13. ágúst, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.