Stór svæði sem vernduð eru fyrir veiðum geta flýtt fyrir bata verðmætra fiskistofna. Þetta er niðurstaða rannsóknar þar sem rýnt var í gögn á tíu ára tímabili. Samkvæmt rannsókninni jókst afli tveggja túnfisktegunda umtalsvert í nágrenni svæðis sem friðað var fyrir veiðum undan ströndum Hawaii-eyjanna.
„Þetta er gott fyrir fiskinn og þetta er gott fyrir fiskimennina,“ hefur vísindatímaritið Nature eftir Jennifer Raynor, hagfræðingi við Wisconsin-háskóla. Raynor er einn höfunda rannsóknarinnar sem birt var í októberhefti Nature.
Niðurstöðurnar sýna fram á verðmæti þess að friða stór hafsvæði. Slíkt hefur verið gert í sífellt meira mæli síðustu árin, aðallega í Kyrrahafinu. Þjóðir heims hafa skuldbundið sig til, með alþjóðasamningum, að friða 30 prósent af landi sínu og hafsvæðum fyrir árið 2030.
Fyrri rannsóknir á áhrifum friðunar fyrir veiðum hafa sýnt að slíkar ákvarðanir geta hjálpað vexti og bata staðbundinna sjávarlífvera, s.s. kóralla og humra. Reynor og félagar vildu hins vegar kanna hvort að friðun svæða gæti líka haft jákvæð áhrif á fartegundir, þ.e. á sjávardýr sem fara um stór svæði og á milli svæða eftir t.d. árstíma og hvort að slíkt gagnist þá sjávarútveginum.
Vísindamennirnir völdu að gera rannsókn sína í og við eitt stærsta verndarsvæði hafsins, Papahānaumokuākea, náttúruvætti sem þekur 1,5 milljón ferkílómetra við strendur Hawaii-eyja. Friðlandið var stofnað árið 2006 og stækkað árið 2016. Megintilgangur friðunarinnar er að vernda náttúru svæðisins og menningu. Vísindahópurinn einbeitti sér að áhrifum friðunarinnar á veiðar á tveimur túnfisktegundum. Safnað var gögnum um afla á tíu ára tímabili, frá 2010-2019, með áherslu á veiðar í allt að 600 sjómílna fjarlægð út frá mörkum verndarsvæðisins.
Niðurstaðan var sú að eftir að verndarsvæðið var stækkað jókst afli, þ.e. hversu margir túnfiskar komu á hverja þúsund króka línu. Aflinn varð meiri eftir því sem veitt var nær verndarsvæðinu. Í innan við 100 sjómílna fjarlægð frá mörkum svæðisins jókst afli annarrar túnfisktegundarinnar um 54 prósent eftir að það var stækkað árið 2016. Afli af hinni tegundinni jókst um 12 prósent á sama tímabili og sömuleiðis jókst afli af öðrum fiskitegundum.
Reynor segir að túnfisktegundin yellowfin, sú sem virðist hafa braggast mikið eftir að verndarsvæðið var stofnað, hrygni innan þess. Það skýri hvers vegna afli á tegundinni aukist – þegar hrygningarslóðir séu friðaðar skili það árangri. „Það er áhugavert að sjá að sjávarútvegurinn nýtur góðs af þessu friðaða hafsvæði,“ hefur Nature eftir David Kroodsma, forsvarsmanni Alþjóðlegu sjávarvaktarinnar, bandarískrar rannsóknar- og nýsköpunarmiðstöðvar.
Þekking heimamanna og vísindin vinna saman
Hann segir hins vegar að hafa verði í huga að niðurstöðurnar snerti rannsókn á einu hafsvæði og að þær sé ekki hægt að yfirfæra án frekari rannsókna á önnur hafsvæði heimsins. Hins vegar styrki niðurstöðurnar þær kenningar að friðun skili árangri, ekki aðeins fyrir heilbrigði sjávar heldur hafi einnig jákvæð efnahagsleg áhrif til lengri tíma.
Stjórnvöld í Hawaii-ríki og bandaríska alríkisstjórnin unnu saman að stofnun Papahānaumokuākea-verndarsvæðisins. Nature hefur eftir Kekuewa Kikiloi, menningarfræðingi við Mānoa-háskóla á Hawaii, segir náttúruvættið gott dæmi um samstarf sem byggi á þekkingu heimamanna og nútíma vísindum. Hann segir þessa nálgun vel geta gagnast annars staðar í heiminum.