Foreldrar og forráðamenn barna sem ganga í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla í Laugarneshverfi í Reykjavík fengu í kvöld skilaboð um að vegna fjölgunar staðfestra COVID-19 smita í Laugarnesskóla hefði komið fram krafa frá almannavörnum um að allir nemendur í báðum skólunum færu í úrvinnslusóttkví.
Börnin eiga því að vera heima á morgun. Þetta er sagt gert í öryggisskyni- og varúðarskyni á meðan unnið er að frekari smitrakningu.
Einn kennari í Laugarnesskóla greindist með COVID-19 um helgina og eftir að um 80 nemendur fóru í sóttkví og skimun hafa smit greinst í þeirra hópi.
Fram kom á Vísi fyrr í kvöld að þrjú smit hefðu verið staðfest hjá nemendum í Laugarnesskóla í dag.
Frístundastarf í Laugarseli, Dalheimum og félagsmiðstöðinni Laugó sem og starf skólahljómsveitar mun liggja niðri, rétt eins og skólastarfið, á meðan úrvinnslusóttkví stendur, samkvæmt orðsendingu til forráðamanna frá Birni Gunnlaugssyni, aðstoðarskólastjóra Laugarnesskóla.