Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata og Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar telja að Íslendingar eigi að fá að kjósa sjálfir í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi áfram með aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB) eins og þingsályktun Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar segir til um.
Þær fjölluðu báðar um málið undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag, sem og svar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær.
Þórhildur Sunna sagði í sinni ræðu að það hefði verið áhugavert að heyra svar forsætisráðherrans. „Spurð að því hvort hún styddi að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið yrði haldin á þessu ári sagði hún sjálfsagt að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu en bara ef fyrir lægi augljós meiri hluti meðal þingmanna fyrir aðild að sambandinu.“
Uppsuða af „aumri afsökun“ Bjarna
Þingmaðurinn sagði að þetta svar væri uppsuða af aumri afsökun fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar, fyrir því að „hafa svikið loforð“ sem hann gaf kjósendum sínum um þjóðaratkvæðagreiðslu um sama mál fyrir kosningar 2013, þar sem hann talaði um pólitískan ómöguleika.
„Sá ómöguleiki fólst í því að hann og formaður Framsóknarflokksins voru á móti ESB-aðild og þar af leiðandi var ómögulegt að standa við gefin loforð og leyfa einhverju jafn ómerkilegu og þjóðarvilja að ráða för í þessu risavaxna hagsmunamáli allrar þjóðarinnar,“ sagði hún.
Þarf að efna til opinnar, fræðandi og málefnalegrar umræðu
Þá telur Þórhildur Sunna að svar forsætisráðherrans frá því í gær sé sérstaklega áhugavert vegna þess að í fyrsta sinn í meira en áratug segjast fleiri fylgjandi aðild að Evrópusambandinu en þeir sem eru andvígir.
„Leiðtogar ríkisstjórnarinnar eru því þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslur séu einungis nothæfar og framkvæmanlegar ef meirihluti þjóðarinnar hefur sömu afstöðu og þau til þess sem spurt er um. Raunar hefur fjármálaráðherra gengið svo langt að kalla alla umræðu um þessa stóru viðhorfsbreytingu gagnvart aðild að ESB ósmekklega vegna stríðsástands í Evrópu og gerir þannig lítið úr auknum vilja kjósenda til að styrkja samstarf Íslands við önnur friðelskandi ríki í álfunni.“
Samkvæmt Þórhildi Sunnu líta Píratar svo á að þjóðin eigi rétt á að láta vilja sinn í ljós og þess vegna hefðu þau, í samvinnu við Samfylkingu og Viðreisn, lagt fram tillögu um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB fyrir lok árs. „Auðvitað þarf að efna til opinnar, fræðandi og málefnalegrar umræðu. Leiði sú afstaða í ljós að farið skuli af stað í aðildarviðræður skal það gert algerlega óháð því hvað einstökum þingmönnum eða flokkum finnst um þá afstöðu.“
Mistök að bera ákvörðunin ekki undir þjóðina á sínum tíma
Þórunn hóf sína ræðu á því að nefna fyrrnefnda tillögu Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar. „Eins og allir hér vita samþykkti Alþingi árið 2009 að hefja aðildarviðræður við ESB. Þá var sú ákvörðun ekki borin undir þjóðina og ég ætla að fá að segja það hér að ég er sammála hæstvirtum forsætisráðherra sem sagði úr þessum ræðustóli í gær að það hefðu verið mistök að gera það ekki þá.“
Hún sagðist þó ekki draga sömu ályktanir aðrar af stöðunni eins og forsætisráðherra. „Alþingi Íslendinga á að treysta kjósendum fyrir þessari ákvörðun og bera undir þá í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka eigi upp þráðinn í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Þjóðaratkvæðagreiðsla myndi rjúfa kyrrstöðuna sem ríkt hefur í Evrópumálum í tæplega áratug hér á landi.“
Hvað er að óttast?
Benti Þórunn á að Alþingi hefði aldrei samþykkt tillögu um að draga aðildarumsóknina til baka og að framkvæmdastjórn ESB liti svo á að viðræðunum hefði aldrei verið slitið þrátt fyrir bréfaskrif þáverandi utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar.
„Það er því hægur vandi að taka upp þráðinn í viðræðunum. Hvers vegna skyldu ríkisstjórnarflokkarnir óttast það svo mjög að spyrja þjóðina hvort við eigum að halda áfram og taka upp þráðinn í aðildarviðræðunum? Hvað er að óttast? Hvers vegna eru stjórnarflokkarnir fastir í fortíð og kyrrstöðu í Evrópumálunum þegar framtíðin blasir við og allar þjóðir í Evrópu eru að endurskoða í grundvallaratriðum öryggishagsmunir sína og þjóðarhagsmunir sína, og nægir að nefna Þýskaland, Svíþjóð og Finnland í því efni?“spyr hún.