Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að gangur efnahagsmála í Noregi verði erfiðari en fyrri spá sjóðsins, frá því í apríl, gerði ráð fyrir. Þetta kemur fram á vef Dagen Næringsliv, en samkvæmt spánni verður hagvöxtur í Noregi í ár 0,9 prósent en fyrri spá gerði ráð fyrir rúmlega eitt prósent hagvexti. Þó 0,1 prósent virðist ekki mikið, fljótt á litið, þá munar um það í stöðugu hagkerfi eins og því norska, en á undanförnum árum hefur mikill uppgangur verið í Noregi, ekki síst meðan olíuverð hélst hátt, eða yfir 100 Bandaríkjadölum og tunnuna. Það hefur að undanförnu sveiflast í kringum 50 Bandaríkjadali.
En undanfarið ár, samhliða miklum verðlækkunum á olíu, hefur verið erfitt fyrir norskan efnahag. Samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er reiknað með meiri samdrætti í olíutengdum verkefnum heldur en fyrri spá gerði ráð fyrir.
Mikill fjöldi Íslendinga hefur flutt til Noregs á undaförnum árum, ekki síst til að starfa við tækni- og iðngreinar af ýmsu tagi, og einnig heilbrigðisþjónustu. Meira en tíu þúsund Íslendingar búa nú í Noregi, og þar af eru um fimm þúsund á Rogalandssvæðinu, þar sem Stavanger er stærsta borgin, en oft er um hana talað sem höfuðborg olíuiðnaðarins í Noregi.