Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) styður ekki að gerð verði krafa um bólusetningarvottorð, svokölluð bólusetningarvegabréf, til þess að fólk megi ferðast landa á milli, að minnsta kosti þessa stundina.
Sú ákvörðun byggir á því að enn óvíst sé hvort bólusetning komi í veg fyrir að veiran berist með fólki, auk jafnræðissjónarmiða, en ýmsar spurningar vakni ef útiloka eigi þá sem af einhverjum orsökum geta ekki þegið bólusetningu frá því að ferðast. Fjallað er um þetta á vef Reuters og vísað til svara talskonu stofnunarinnar, Margaret Harris, á blaðamannafundi á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Regluverk um bólusetningarvegabréf, eða rafræn vottorð um bólusetningu sem á að vera handhægt að framvísa til þess að fá að ferðast eða nota þjónustu, er þó víða í smíðum. Evrópusambandið hefur þegar kynnt til sögunnar áætlun um samræmd rafræn skírteini sem eiga að sýna fram á að fólk hafi ýmist verið bólusett, fengið nýlegt neikvætt PCR-próf eða náð sér eftir að hafa sýkst af COVID-19.
Eftirlitsstofnanir ESB á sviði persónuverndar hafa þóvarað við því að heilbrigðisgögnum verði safnað saman á þennan máta. Tryggja þurfi að lagagrundvöllur sé fyrir áætlunum Evrópusambandsins í hverju og einu aðildarríki. Einnig þurfi að tryggja að ef af þessari gagnasöfnun verði þurfi sömuleiðis að passa að hún verði einungis tímabundin og hætti þegar faraldrinum ljúki.
Þá hafa hin ýmsu ríki kynnt til sögunnar einskonar bólusetningarpassa sem nota má innanlands til þess að fá aðgang að þjónustu. Smám saman er að verða tvískiptur heimur þeirra sem geta sýnt fram á ónæmi og annarra.
Í Bretlandi er til dæmis verið að smíða tæknilausn sem mætti nota til þess að gera fjöldasamkomur af ýmsu tagi mögulegar á ný. Úrslitaleikurinn í ensku bikarkeppninni í fótbolta í vor verður til dæmis vettvangur fyrir tilraunastarfsemi af þessu tagi, en til stendur að hleypa bólusettum áhorfendum eða þeim geta fært sönnur á ónæmi með öðrum hætti á leikinn.
Danir hafa einnig kynnt til sögunnar rafrænan kórónupassa, sem tók gildi í dag. Hann gerir bólusettum, þeim sem hafa smitast af veirunni á síðustu 2-12 vikum og þeim sem eru með neikvætt PCR-próf sem er minna en 72 tíma gamalt að sækja sér þjónustu sem ekki hefur verið í boði undanfarnar vikur, eins og til dæmis hárgreiðslustofur.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ætlar þó sem sakir standa ekki að styðja við áætlanir sem gera bólusetningu að kröfu varðandi ferðalög á milli landa og því ekki líklegt að stofnunin muni á næstunni koma að því að setja upp eitthvert regluverk um slíkt kerfi bólusetningarvegabréfa á alþjóðavísu.