„Í janúar 2021 sendi Halldór Kristmannsson bréf til stjórnar Alvogen, sem innihélt fjölda ásakana um starfshætti Róberts Wessman. Að lokinni óháðri rannsókn sérfræðinga, stefndi Alvogen Halldóri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og átti málflutningur að fara fram á haustmánuðum. Aðilar hafa náð sáttum í málinu og mun Alvogen falla frá málsókninni. Halldór mun loka heimasíðu sinni og hefur lýst því yfir að hann hafi ekki stöðu uppljóstrara í neinni lögsögu. Jafnframt hefur hann lýst því yfir að hann uni þeirri niðurstöðu stjórnar að lýsa yfir trausti til Róberts í kjölfar rannsóknarinnar.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Alvogen sendi frá sér í dag. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans fékk Halldór ekkert greitt umfram samningsbundnar greiðslur og útlagðan lögmannskostnað. Talsmaður fjárfestingafélags Róberts Wessman sagðist ekki hafa upplýsingar um hver heildarupphæðin væri.
Halldór var einn nánasti samstarfsmaður Róberts Wessman um margra ára skeið. Hann steig fram í upphafi árs í fyrra sem uppljóstrari og lagði fram gögn sem sýna fram á ósæmilega hegðun forstjórans yfir margra ára tímabil. Stundin greindi frá því sama dag og Halldór steig fram að Róbert hefði reynt að hringja í fyrrverandi fjármálastjóra Actavis, Mark Keatly, eftir að hann bar vitni í máli sem Björgólfur Thor Björgólfsson hafði höfðað meðal annars gegn Róbert. Í kjölfarið hafi hann sent manninum og Claudio Albrecht, fyrrverandi forstjóra Actavis, alls 33 smáskilaboð á innan við sólarhring þar sem hann hótað meðal annars að drepa Keatly og að hann myndi vinna þeim og fjölskyldu þeirra skaða.
Viku áður hafði stjórn Alvogen sent frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því því að kvartað hefði verið yfir hegðun Róberts. Þar sagði að óháð nefnd hefði verið sett á fót til að kanna innihald kvörtunarinnar og Róbert sagt sig frá störfum fyrir Alvogen á meðan að sú athugun fór fram.
Vildi starfið sitt aftur og að Róbert yrði rekinn
Erlend lögfræðistofa, White & Case, var fengin til að fara yfir kvartanir Halldórs og íslenska lögmannsstofan Lex veitti ráðgjöf. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafði erlenda lögfræðistofan unnið áður fyrir Alvogen og suma eigendur þess. Rannsóknin stóð yfir í átta vikur og samkvæmt yfirlýsingu Alvogen var niðurstaðan sú að efni kvartanna ætti sér enga stoð. „Ekkert bendir til þess að starfshættir Róberts Wessman séu þess eðlis sem greint er frá í bréfinu og engin ástæða er til þess að aðhafast neitt vegna þessa máls.“
Þessu hafnaði Halldór Kristmannsson og gagnrýndi úttektina. Hann bauð sátt í deilunum í gegnum bandaríska lögmannsstofu í mars í fyrra. Í því sáttarboði fólst að hann vildi fá gamla starfið sitt aftur og að Róberti yrði gert að víkja sem forstjóra Alvogen. Á móti myndi Halldór falla frá öllum fjárkröfum sem hann gæti átt á hendur Alvogen eða Alvotech og skrifa undir trúnaðarsamkomulag. Þessu tilboði var hafnað.
Í tilkynningu sem Halldór sendi frá sér 7. apríl 2021 greindi han nfrá því að fulltrúar Alvogen hefðu verið setið fyrir honum „fyrir utan World Class í Smáralind, með uppsagnarbréf og stefnu, þar sem fyrirtækin hyggjast freista þess að fá lögmæti uppsagnarinnar staðfesta fyrir Héraðsdómi. Stjórnum fyrirtækjanna virðist einfaldlega vera ofviða að framkvæma óháða rannsókn á stjórnarformanni, forstjóra og sínum stærsta hluthafa, eða aðhafast nokkuð yfir höfuð þegar Róbert er annars vegar.“
Halldór setti á fót heimasíðu í lok apríl í fyrra þar sem hann rakti sögu sína sem uppljóstrara. Samkvæmt samkomulaginu sem nú liggur fyrir verður sú síða tekin niður. Hún er þó enn sem komið er enn í loftinu. Hana er hægt að sjá hér.
Deilur sem teygðu sig inn í fjölmiðla
Deilur milli Halldórs og Róberts teygðu sig inn í íslenska fjölmiðla. Halldór greindi frá því í fyrra að hann hefði verið beittur óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á óvildarmenn Róberts, sem hann bar þungum sökum, í fjölmiðlum sem Róbert kom að fjármögnun á. Þar var meðal annars um að ræða fjölmiðla á vegum Birtings sem voru um tíma í eigu Halldórs en fjármagnaðir af Róberti. Halldór sagðist hafa talið „fulla ástæðu til þess að setja fótinn niður og tjáði Róbert ítrekað, að ég myndi ekki beita mér fyrir því að koma höggi á umrædda aðila í fjölmiðlum og vega beinlínis að æru og mannorði þeirra, eins og hann vildi. Ég var um tíma útgefandi Mannlífs, sem Róbert fjármagnaði og átti, en þar myndaðist til að mynda mikill ágreiningur um ritstjórnarstefnu og sjálfstæði. Úr þessu skapaðist vaxandi ósætti okkar á milli, sem gerði það að verkum að ég steig nauðbeygður til hliðar tímabundið, og upplýsti stjórnir fyrirtækjanna um málavexti. Ég vil standa vörð um ákveðin siðferðisleg gildi, og lét því ekki hagga mér í þessum málum.“
Reynir Traustason, ritstjóri og aðaleigandi Mannlífs, opinberaði í kjölfarið að hann væri að skrifa bók um Róbert og að Halldór Kristmannsson hafi aðstoðað hann við upplýsingaöflun. „Heimildarbókin er og verður fjármögnuð af Halldóri og sérstaklega verður greint frá þessum tengslum við útgáfuna og þann fjárhagsstuðning sem því tengist,“ sagði í frétt á Mannlífi.
Róbert kærði Reyni í kjölfarið til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem hefur nú ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að Reynir hafi gerst sekur um alvarlegt siðareglubrot með því að skrifa um Róbert en þiggja fjármuni frá Halldóri á sama tíma. Hann hafi verið vanhæfur til þess í ljósi fjárhagslegs sambands hans við Halldór.