Amazon, stærsta internetfyrirtæki Bandaríkjanna og eitt það stærsta í heiminum, ætlar að opna verslun í New York fyrir komandi jól. Það þykir, vægast sagt, sæta tíðindum enda snérist upprunalegt viðskiptamódel Amazon, bókabúð á netinu, um að neytendur ættu að geta pantað sér allar bækur sem þeim þyrstir í heim að dyrum fyrir lægra verð en smásalinn rukkar þá. Verslunin, sem verður staðsett á 34. stræti, milli flaggskipsverslunar Macy´s í borginni og Empire State-byggingarinnar, verður fyrsta verslunin í raunheimum sem netrisinn opnar. Frá þessu er greint í The Wall Street Journal.
Amazon hefur auðvitað vaxið gríðarlega síðan að vefsíða fyrirtækisins, sem stofnað var af Jeff Bezos árið 1994, var sett í loftið fyrir 19 árum. Fyrirtækið framleiðir nú meðal annars ýmsar vörur á borð við snjallsíma og lestrartölvur undir vörulínuheitunum Fire og Kindle og rekur eitt háþróaðasta vöruhúsa- og heimsendingakerfi heimsins. Það er líka orðið ansi langt síðan að Amazon seldi bara bækur. Velta fyrirtækisins á árinu 2013 nam 75,5 milljörðum dala, eða rúmlega 9.100 milljarðar króna. Það er rúmlega fimm sinnum þjóðarframleiðsla Íslands í fyrra.
Forsvarsmenn Amazon segja að opnun verslunarinnar sé einungis tilraun og að ekki sé um stefnubreytingu að ræða. Verslunin muni þjóna hlutverki lítils vöruhúss, viðskiptavinir fyrirtækisins muni geta sótt pantanir þangað og skilað vörum líkt og þeir geta nú þegar í vöruhúsum Amazon sem staðsett eru víðsvegar um heiminn. Auk þess verði verslunin notuð til að sýna Kindle og Fire vörulínur fyrirtækisins. Erlendir fréttamiðlar virðast hins vegar margir vera á þeirri skoðun að opnunin sé einungis fyrsta skrefið af mörgum í innreið Amazon í raunheimaverslun til að keppa við samkeppnisaðila á borð við Apple, sem rekur verslanir með vörur sínar út um allan heim. Vöruþróun fyrirtækisins undanfarin misseri (tæki til að auðkenna varning, kortalesari til að kaupa varningin osfr.) undirstriki þá kenningu.
Verslunin á að opna fyrir jólavertíðina.