Ásta Sigríður Fjeldsted hefur tekið við starfi forstjóra Festi, samkvæt tilkynningu Festi til Kauphallarinnar. Ásta hefur starfað sem forstjóri Krónunnar frá árinu 2020 og mun fyrst um sinn gegna því starfi áfram samhliða nýju starfi.
Magnús Kr. Ingason stígur niður sem forstjóri Festi og sinnir starfi fjármálastjóra áfram, en Magnús tók tímabundið við forstjórastarfinu í sumar eftir að stjórn Festi ákvað að segja Eggerti Þór Kristóferssyni upp störfum. Í fyrstu var tilkynnt um að Eggert hefði óskað sjálfur eftir starfslokum en síðar kom í ljós að stjórn tók ákvörðun um að segja honum upp. Í kjölfarið var stokkað upp í stjórn Festi.
Stolt af því að fá öfluga konu til að leiða félagið
„Það er mikill styrkur að fá Ástu S. Fjeldsted til að leiða það öfluga teymi sem hjá fyrirtækinu starfar og móta með okkur framtíðarstefnu þess. Framundan eru spennandi tímar og mikil sóknartækifæri. Ásta hefur bæði reynslu af rekstri í smásölugeiranum eftir árin hjá Krónunni en jafnframt alþjóðlega reynslu í stefnmótun og umbótaverkefnum fyrir stórfyrirtæki í öðrum geirum. Við erum stolt af því að fá jafn öfluga konu til að leiða fyrirtækið,“ segir Guðjón Reynisson stjórnarmaður í Festi í tilkynningu félagsins.
„Efst í huga mér er þakklæti fyrir traustið, en Festi ásamt rekstrarfélögum þess (N1 ehf., ELKO ehf., Krónan ehf., Festi fasteignir ehf., Bakkinn vöruhótel ehf. og N1 Rafmagn ehf.) starfar á afar spennandi og síkvikum mörkuðum, sem hafa raunveruleg áhrif á lífskjör almennings á Íslandi. Ábyrgð okkar sem þar störfum er því mikil og ljóst að vegferð félagsins þarf að vera í stöðugri þróun. Það eru forréttindi að fá að vinna áfram með öllu því öfluga fólki, sem starfar innan Festi og rekstrarfélaganna,“ segir Ásta S. Fjeldsted nýráðinn forstjóri Festi í tilkynningu félagsins.
Ásta Sigríður hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Krónunnar frá árinu 2020. Áður var hún framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands frá 2017. Ásta Sigríður starfaði fram til þess hjá þremur alþjóðlegum fyrirtækjum í meira en áratug: Fyrir ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Company frá árinu 2012, bæði á skrifstofum þess í Tókýó og Kaupmannahöfn, þar sem hún tók þátt í eða leiddi fjölda smærri og stærri greininga- og umbreytingaverkefni. Áður starfaði hún hjá IBM í Danmörku og stoðtækjaframleiðandanum Össuri hf., bæði í Frakklandi og á Íslandi. Ásta Sigríður er vélaverkfræðingur með M.Sc. gráðu frá DTU, Tækniháskólanum í Danmörku.